Smit í Bolungarvík

Frá Bolungarvík.
Frá Bolungarvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Covid-19-smit hefur verið staðfest í Bolungarvík og grunur er um fleiri. Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur því ákveðið, í samráði við sóttvarnalækni, almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og skólayfirvöld að fella niður kennslu á mið- og unglingastigi Grunnskólans í Bolungarvík.

Þetta kemur fram á facebooksíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Viðbrögðin taka gildi frá og með morgundeginum, 1. apríl, og gilda þar til annað verður ákveðið. Allir nemendur og kennarar á þessum stigum skulu halda sig heima í úrvinnslusóttkví meðan sýni eru greind. Þeir sem eru í úrvinnslusóttkví skulu fara að sömu fyrirmælum og aðrir þeir sem eru í heimasóttkví.

„Á þessu stigi er ekki talin þörf á algjöru samkomubanni í Bolungarvík. Hins vegar er tilefni til að hvetja fólk til að halda sig heima, halda samskiptafjarlægð, takmarka ferðir og fylgja að öðru leyti leiðbeiningum yfirvalda. Unnið er að smitrakningu og beðið niðurstaðna úr sýnatökum. Nokkur fjöldi einstaklinga er nú þegar í sóttkví,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert