„Við vorum tilbúin“

Grunnskólar í Kópavogi voru vel undirbúnir þegar landslagið í skólastarfinu breyttist í einu vettvangi vegna kórónuveirunnar þar sem allir nemendur í 5.-10. bekk eru með eigin spjaldtölvur sem þeir hafa fengið afhenta frá bæjaryfirvöldum. Því var auðveldara en ella að fara úr staðbundinni kennslu í blandaða kennslu og fjarkennslu með litlum fyrirvara.

Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnastjóri í upplýsingatækni í skólastarfi hjá Kópavogsbæ.
Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnastjóri í upplýsingatækni í skólastarfi hjá Kópavogsbæ.

Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnastjóri í upplýsingatækni í skólastarfi hjá Kópavogsbæ, segir að í Kópavogi mæti nemendur í 1.- 5. bekk yfirleitt í skólann að hluta til þessa dagana en eldri nemendur mæta lítið sem ekkert í staðbundið nám. Útfærslan er mismunandi eftir skólum og eins hversu mikið yngstu nemendurnir mæta. Þau eldri eru mest í fjarnámi en sumir skólar eru með mætingu einu sinni í viku eða oftar. Þegar breytingarnar voru gerðar á skólastarfinu vegna COVID-19 voru starfsmenn grunnskólanna sem eru í Eflingu í verkfalli þannig að kennsla hafði legið niðri í um helming skólanna í einhvern tíma. 

„Við vorum tilbúin undir þetta þar sem innleiðing tækninnar hefur verið í gangi í fimm ár eða frá árinu 2015 eftir að ákvörðun var tekin um að spjaldtölvuvæða skólana hjá Kópavogsbæ. Öll öryggisatriði, innleiðing og um leið grunnur að fjarnámi voru tilbúin og allir kennarar með spjaldtölvu til afnota. Þeir hafa fengið námskeið og kennsluráðgjöf á þessu sviði í þessi fimm ár,“ segir Bergþóra. Hún segir að kennararnir hafi langflestir verið tilbúnir til þess að stíga þetta skref enda vissu þeir að hverju þeir gengu. „Kennsluráðgjafarnir hafa brugðist vel við og hafa sett  upp áætlun um fjarnám sem byggt er ofan á þann grunn sem þegar var búið að leggja,“ segir Bergþóra. 

„Við unnum gátlista sem við hugsuðum sem leiðbeiningar fyrir skólastarfið og til stuðnings. Gátlistarnir eru byggðir upp stig af stigi fyrir innleiðingu fjarnáms og voru sendir út jafnt og þétt,“ segir hún en í þeim er að finna ráð til kennara og skólastjórnenda um hvað er gott að hafa í huga við þetta kennsluform.

Síðan hafa skólar og kennarar einnig farið sínar eigin leiðir. Ýmis forrit hafa verið innleidd á undanförnum árum sem nýtast sem fjarnámsumhverfi s.s. Google Classroom, Showbie og Seesaw. Eins eru mörg smáforrit (öpp) í notkun sem bjóða upp á heimanám í öðru formi en því hefðbundna sem foreldrar þekkja frá sínum grunnskólaárum.

Við ráðgjafarnir höldum opna ráðgjafafundi fyrir kennara með hjálp Google Meet þar sem kennarar úr öllum grunnskólum Kópavogs geta rætt saman, fengið ráð og gefið ráð varðandi kennsluna. Þar funda til að mynda kennarar úr ólíkum skólum af sömu skólastigum og kennarar sem kenna sömu námsgreinar. Við nýtum okkur það að deila skjölum og eins er haldin sameiginleg fundargerð þar sem allir geta lagt til málanna varðandi fyrirliggjandi fundarefni.

Fyrst og fremst virkar þetta allt af því að búið var að leggja grunninn. Það hafa ekki komið upp neinir stórir erfiðleikar og lítið meira reynt á ráðgjafatteymið þar sem allir kunnu þá þegar á tæknilega grunninn sem búið var að leggja upp með,“ segir hún en Kópavogsbær heldur úti sérstökum vef: spjaldtolvur.kópavogur.is þar sem m.a. er að finna sérstakan fjarnámshnapp með gátlistunum og frekara efni fyrir kennara og nemendur sem allir geta nýtt sér.

„En það koma alltaf upp nýjar áskoranir og það þarf að huga sérstaklega að líðan nemenda sem nú eru heima við misjafnar aðstæður. Því þurfa áætlanir kennara að taka mið af ólíkum aðstæðum nemenda til náms heima. Við leggjum áherslu á að foreldrar og nemendur missi ekki tengsl við skólann og skólinn í heild er að sinna upplýsingamiðlun og vinnur í samráði við heimilin eftir því hvar nemendur eru staddir,“ segir Bergþóra.

mbl.is/Thinkstockphotos

Google Meet fjarfundahugbúnaðurinn er líka notaður fyrir kennsluna og einhverjir kennarar eru að hitta bekkina sína daglega. Í sumum skólum er þetta alltaf á sama tíma dags og ætlast til þess að börnin séu komin á fætur, búin að klæða sig og taka sig til. Að sögn Bergþóru er þetta meðal annars gert til þess að halda nemendum við efnið og að reyna að halda reglu þrátt fyrir breytt skólastarf. Hver skóli hefur sinn háttinn á í þessu.

Bergþóra segist hlakka til þegar farið verður yfir hvernig skólastarfið gekk á þessum tíma. Að sjá hvernig þetta gekk upp og eitt af því sem hún segir að hafa skipt miklu er að ekki var farið út í neinar nýjungar í upphafi heldur notast við það námsumhverfi sem nemendurnir eru vanir. Hvort sem það er Google Classroom, Seesaw, Mentor eða hvað sem er. Kennurum var einnig ráðlagt að senda nemendur heim með námsbækur. Foreldrar geta þá aðstoðað þau að vild án þess að öll áherslan í fjarnáminu sé lögð á sjálfar námsbækurnar. Hins vegar speglast vel í þessu ástandi hversu skólinn skiptir miklu máli fyrir jöfnuð til náms og nú er það okkar að finna leiðir í fjarnámi til að styðja áfram við jafnt aðgengi til náms óháð staðsetningu. Þar stendur Kópavogur mjög vel að vígi.

Tæknin getur veitt foreldrum bjargir til að aðstoða barn sitt við nám og sem dæmi auðveldað aðgengi að hjálp við heimanám á ólíkum tungumálum. Það er vel hægt ef rétt er búið um hnútana. Möguleikar á auknum sveigjanleika til náms kemur einnig upp á yfirborðið í svona aðstæðum.

„Við í Kópavogi getum haldið áætlun að einhverju leyti en þurfum þó að hugsa námið með breyttum hætti og lærum vonandi helling af þessum breyttu aðstæðum sem uppi eru” segir Bergþóra “Við vonumst til þess að skólasamfélagið líti jákvætt á þetta óvænta átaksverkefni og gefi okkur byr undir báða vængi  til að halda áfram í þróun kennsluátta hér í Kópavogi sem eru nær því breytta samfélagi sem tækniþróunin hefur sett mark sitt á.“

Kennarar í Kópavogi voru vel undir þetta búnir, eða eins og einn skólastjórnandinn orðaði það: Nú var kennurum hent út í djúpu laugina og þá kom í ljós að þeir þurftu hvorki kút né kork,“ segir Bergþóra og segir þetta lýsandi fyrir það hvað kennarar voru tilbúnir að hjálpast að við að láta þetta ganga. Þeir hafa margir hverjir verið að hittast einu sinni í mánuði á svokölluðum Menntabúðum #Kópmennt til að læra hver af öðrum. „Nú hefur tekið við tímabil þar sem rafræn samskipti og fjarfundir eru nýttir meðal kennara og skólastjórnenda til að miðla og læra enn meira saman,” segir Bergþóra.

Lögð er áhersla á það við kennara að þeir hafi í huga að nemandinn finni að kennarinn er til staðar fyrir hann. Að kennarar séu í sambandi og fylgist með að nemendur sýni virkni í rafræna námsumhverfinu. „Það er ekki nóg að nemendur skili inn verkefnum heldur þurfa kennarar að sýna svörun,“ segir Bergþóra og bætir við að viðbúið sé að fjarkennsla henti ekki öllum nemendum og við erum að skoða vel hvernig hægt er að aðstoða kennara við samskiptin og gæta þess um leið að aðstæður geta verið alls konar. „Við þurfum líka að bregðast við ef ekki næst í heimili rétt eins og áður.“

mbl.is/Hari

„Það er viðbúið að fjarkennsla henti ekki öllum nemendum. En það er líka viðbúið að slíkt fyrirkomulag henti einhverjum nemendum sem eru að ströggla í hinu staðbundna fyrirkomulagi. Þessi staða vekur með öðrum orðum skólasamfélagið til umhugsanir um að gefa þessum möguleika við nám meiri gaum og að við áttum okkur á að rafrænar lausnir eru raunverulegar. Við hér í Kópavogi viljum vinna út frá því. Það hjálpar gríðarlega að nemendur og kennarar hafi aðgang að búnaði sem hann getur aðlagað að sínum persónulegum þörfum í námi og áhugamálum. Aðbúnaðurinn hér gefur okkur forskot sem til að takast á við verkefnið sem blasir við okkur núna og ekki síst með það í huga að það nýtist okkur til framtíðar,” segir Bergþóra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert