Ást og friður varða mestu í lífinu

Listamaðurinn Gallo á Kúbu.
Listamaðurinn Gallo á Kúbu. mbl.is/Kristín Heiða

Að heimsækja hinn aldna listamann og lífskúnstner Gallo á Kúbu er töfrum líkast. Hjarta hans er opið upp á gátt og hann hleypir gestum inn á heimili sitt og í garðinn hjá sér, þar sem allt er bókstaflega þakið í listaverkum hans, rusli sem hann hefur breytt í gleðjandi fígúrur. Verkin hans eru óður til gleðinnar og ástarinnar, sem veröld öll finnur nú að þörf er á.

Eftir að hafa þjónað þjóð minni í þrjátíu ár var mér hent eins og rusli sem enginn hafði lengur not fyrir. Ég lagðist í djúpt þunglyndi en byrjaði svo að hirða rusl sem enginn vildi sjá og breyta því í eitthvað sem gleður, gaf því nýtt líf og nýjan tilgang,“ segir Gallo, Hector Gallo Portieles, 95 ára listamaður sem býr í Alamar, bæ rétt utan við Havana á Kúbu. Gallo hefur breytt heimili sínu og garði í listasafn og nágrannar hans færa honum hversdagslega hluti sem annars færu á haugana. Bíða svo spenntir að sjá í hvað hann breytir þeim. Hann leggur ríka áherslu á visku, er boðberi gæsku og ástar, aflsins að baki mannlegri von. Ekkert verka hans er til sölu.

Listaverk eftir Gallo.
Listaverk eftir Gallo. mbl.is/Kristín Heiða

„Alvaran felst í skopskyninu, að fá aðra til að hlæja eða brosa innra með sjálfum sér. Það er lykilatriði, lífsnauðsyn. Ég kýs að dvelja hér og halda áfram að breiða út boðskapinn með verkum mínum, frekar en flytja í fínt hverfi þar sem mér yrði bannað þetta. Ég verð að halda áfram, það heldur mér lifandi að búa til verkin mín. Ég sækist ekki eftir fullkomnun, heldur einlægasta formi tjáningar. Þeim mun meira sem verkin mín virðast hafa verið gerð af börnum, þeim mun betra.“

Þegar ég spyr Gallo að því hvers vegna öll verkin hans séu með gleraugu svarar hann því til að hann vilji ekki að þau verði blind. „Allir í minni fjölskyldu hafa dáið blindir, svo ég gleymi aldrei að setja augu á verkin mín.“

Fékk tilskipun að ofan

Saga þessa magnaða manns hefst á kraftaverki, því Rósa móðir hans átti þrjú ár í fimmtugt þegar hún fæddi hann, 17. maí 1924. Hann var sjötta og yngsta barnið í fjölskyldunni, sem var vel sett, Antonio faðir hans var borgarstjóri bæjarins, Campo Florido. Gallo var kallaður Tico litli, og segist aldrei gleyma ástríki móður sinnar. Þegar hann var 12 ára, árið 1936, urðu pólitískar breytingar til þess að faðir hans var sviptur borgarstjórastöðunni og fjölskyldan varð skyndilega tekjulaus og snauð. Tico litli þurfti að fara að vinna fyrir sér og bróðir hans tók hann inn á sína rakarastofu og kenndi honum til rakara. Rakarastofan var fundarstaður ólgandi sósíalista og Tico litli drakk í sig allt sem þeir sögðu. Hann átti reiðhjól og fékk hlutverk sem sendill, bar boð á milli félaga vaxandi pólitískrar andspyrnuhreyfingar. Í einni slíkri sendiferð hitti hann ástina í lífi sínu, Maríu Emilíu, sem hann giftist 1946 og átti með henni þrjú börn.

Listaverk eftir Gallo.
Listaverk eftir Gallo. mbl.is/Kristín Heiða

Byltingarsinnar unnu sigur árið 1959 og þá fékk Gallo tilskipun frá valdamestu mönnunum: „Héðan í frá ert þú ekki lengur rakari heldur ríkiserindreki.“ Ekki var í boði að neita og líf Gallos umturnaðist, hann var sendur til Paragvæ, opinberlega sem sölufulltrúi en í raun sem njósnari. Næstu þrjátíu ár bjó hann í tuttugu löndum og sinnti erindum fyrir þjóð sína. Þegar hann var sendiherra í Kambódíu lauk hann þar námi í blaðamennsku, 58 ára.

Bjargaði fjölda mannslífa

Gallo segir sögu frá byltingarárum þegar til hans leitaði örvæntingarfullur fátækur maður sem átti mjög veika dóttur. „Hann bauð mér mikilvægar hernaðarupplýsingar í skiptum fyrir peninga, svo hann gæti leitað læknishjálpar, en ég sagði honum að ég mætti alls ekki borga fyrir slíkar upplýsingar. Til að hjálpa honum lét ég hann hafa mína persónulegu peninga, ég hafði verið að leggja svolítið fyrir, en það var ekki mikið. Vesalings maðurinn var svo feginn að hann sagði „Ég er líka heiðursmaður, og læt þig í þakklætisskyni hafa þessar hernaðarupplýsingar.“ Þetta reyndust afar dýrmætar upplýsingar sem ég kom áleiðis og þær björguðu gríðarlega mörgum mannslífum sem og verðmætum. Ég fékk varla takk fyrir frá yfirvöldum.“

Listaverk eftir Gallo.
Listaverk eftir Gallo. mbl.is/Kristín Heiða

Þrátt fyrir glæstan feril og mikilvægt framlag til þjóðar sinnar naut Gallo ekki umbunar í ellinni. Við fall Sovétríkjanna 1990, þegar hann var 65 ára og kominn á eftirlaun, breyttist allt. Þá hrundu launin og hann varð fátækur maður, átti vart fyrir mat, með fullt hús af fólki, konu, tvær dætur og tengdasyni. „Allt sem ég hafði trúað á hrundi og ég missti lífslöngun. Þessi listsköpun bjargaði lífi mínu, ég endurfæddist.“

Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »