„Borgar sig að taka þetta alvarlega“

Guðrún Ólöf Björnsdóttir og yngsti sonurinn á skírnardaginn. Drengurinn, sem …
Guðrún Ólöf Björnsdóttir og yngsti sonurinn á skírnardaginn. Drengurinn, sem er fjögurra mánaða, var lagður inn á Sjúkra­húsið á Ak­ur­eyri í síðustu eft­ir að hafa blánað í slæmu hóstak­asti. Í ljós kom að hann var með kórónuveiruna. Ljósmynd/Facebook

Hann er farinn að brosa og hjala og líður vel. Það er allt á uppleið,“ segir Guðrún Ólöf Björnsdóttir, móðir fjögurra mánaða gamals drengs sem greindist með kórónuveiruna í síðustu viku. Hann var lagður inn á Sjúkra­húsið á Ak­ur­eyri eft­ir að hafa blánað í slæmu hóstak­asti. Guðrún, sem er með soninn á brjósti, er ekki smituð af veirunni en sýni var tekið hjá henni í fyrradag. 

Óljóst er hvernig dreng­ur­inn smitaðist. Bróðir hans, sem er þriggja ára, veikt­ist 6. mars og var mikið las­inn. Rúmri viku síðar veikt­ist litli bróðir hans. Fyrst var eng­inn grun­ur um að þeir hefðu smit­ast af veirunni. Vegna þess hve veik­indi yngri drengs­ins voru skæð var á end­an­um ákveðið að taka sýni fyr­ir kór­ónu­veiru sem kom út já­kvætt.  

Saklaus fyrirspurn varð að fréttaefni

Guðrún furðaði sig mest á því af hverju hún hefði ekki sjálf smitast og ákvað því að senda fyrirspurn fyrir umræðuþátt RÚV um kórónuveiruna, sem var á dagskrá í gærkvöldi. „Upprunalega spurningin hjá mér var: Af hverju er ég ekki orðin smituð ef hann er smitaður? Og þar með fékk ég fullt af símtölum frá fjölmiðlum, ég ætlaði svo sem ekki að fara með þetta í fréttirnar en þetta þykir sérstakt,“ segir hún. 

Hvað veikindi þriggja ára sonarins varðar grunaði Guðrúnu alltaf að um týpíska leikskólapest væri að ræða. „Þá var ekki farið að prófa almenning heldur bara þá sem voru erlendis þar sem þessi sýking var til staðar. En það borgar sig fyrir almenning að taka þetta alvarlega, maður veit aldrei hver er útsettari fyrir þessu og veikist alvarlega,“ segir hún. Of langur tími er liðinn til að greina þriggja ára drenginn og ekki hægt að segja til um hvort hann hafi smitast af kórónuveirunni. 

Fjögur börn eru á heimilinu svo það er nóg að …
Fjögur börn eru á heimilinu svo það er nóg að gera hjá sex manna fjölskyldunni sem er öll saman í sóttkví. Ljósmynd/Facebook

„Mjög heppin með hvað börnin mín eru góð“

Dreng­ur­inn var út­skrifaður af sjúkra­hús­inu í gær og er kom­inn heim í ein­angr­un. Fjögur börn eru á heimilinu svo það er nóg að gera hjá sex manna fjölskyldunni sem er öll saman í sóttkví. „Það gengur bara ótrúlega vel, ég er mjög heppin með hvað börnin mín eru góð,“ segir hún og hlær. „Við gerum okkur besta í þessu. Hann er allur að braggast en það tekur smá tíma að ná hóstanum og kvefinu úr honum,“ segir Guðrún. 

Guðrún segir greiningu sonarins sýna að enn eigi margt eftir að koma í ljós um eðli kórónuveirunnar og hvernig hún hagar sér. „Það er alveg þannig að börn smitast af þessu, bara misilla, það er allavega mín tilfinning.“

Vel er haldið utan um drenginn og fjölskylduna eftir að þau fengu að fara heim af sjúkrahúsinu. „Það er mjög gott eftirlit og mig langar að hrósa smitrakningarteyminu, læknunum og öllum þeim sem hafa samband við okkur. Það er vel haldið utan um þá sem greinast og ég er mjög ánægð með það.“

mbl.is