Enginn hefur losnað úr öndunarvél

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Enginn sem hefur farið í öndunarvél á Landspítalanum eftir að hafa smitast af kórónuveirunni hefur losnað úr henni. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á blaðamannafundi.

Fram kom á blaðamannafundinum að alls væru ellefu manns í öndunarvél hérlendis með sjúkdóminn COVID-19.

Páll sagðist ekki geta svarað því hversu lengi sá sem hefði lengst verið í öndunarvél hefði verið þar. Hann sagði að þeir sem hefðu farið í öndunarvél væru þar enn. Þetta væri í samræmi við upplýsingar sem hefðu komið erlendis frá. „Þegar fólk fær lungnabólgu tengda COVID-sýkingu þá er hún ansi alvarleg,“ sagði hann og nefndi að langvinna öndunarvélameðferð þyrfti við slíkar aðstæður.

Alma Möller landlæknir sagði að tölur að utan sýndu að fólk sem færi í öndunarvél með lungnabólgu þyrfti að vera þar að jafnaði frá einni upp í þrjár vikur.

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert