Hafnarfjarðarbær bregst við COVID-19

Samkvæmt áætluninni verður létt á mánaðarlegri greiðslubyrði íbúa og fyrirtækja …
Samkvæmt áætluninni verður létt á mánaðarlegri greiðslubyrði íbúa og fyrirtækja með fjölgun gjalddaga fasteignaskatta og -gjalda, þ.m.t. lóðarleigu, holræsagjalds og vatnsgjalds. mbl.is/Hari

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti einróma í dag aðgerðaáætlun til þess að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir að áætlunin sé í 11 liðum þar sem heilsa og velferð íbúa og starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar er sett í forgang, samhliða því sem brugðist er við efnahagslegum áhrifum faraldursins á íbúa, félög og fyrirtæki, auk sveitarfélagsins sjálfs.

Samkvæmt áætluninni verður létt á mánaðarlegri greiðslubyrði íbúa og fyrirtækja með fjölgun gjalddaga fasteignaskatta og -gjalda, þ.m.t. lóðarleigu, holræsagjalds og vatnsgjalds. Þá geta fyrirtæki sem orðið hafa fyrir meira en 25% tekjutapi vegna faraldursins sótt um frestun allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta og -gjalda fram á næsta ár.

Þá verða gjöld leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila leiðrétt í hlutfalli við þá skerðingu á þjónustu sem rekja má til faraldursins, auk þess sem árskort á bókasöfn og sundstaði verða framlengd sem nemur skertum afgreiðslutímum.

Loks verður komið til móts við íþrótta- og tómstundafélög í bænum með það að markmiði að verja rekstur þeirra og starfsemi og leitað verður leiða til þess að standa vörð um menningar- og listalíf bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert