Hjálparstarf heldur áfram þrátt fyrir samkomubann

Heilbrigðisstarfsfólk í hlífðarfatnaði.
Heilbrigðisstarfsfólk í hlífðarfatnaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálparstarf kirkjunnar heldur ótrautt áfram þjónustu við fólk sem býr við fátækt þrátt fyrir samkomubann. Í tilkynningu kemur fram að hjálparstarfið veitir efnislega aðstoð fyrst og fremst með inneignarkortum í matvöruverslunum og aðstoðar fólk við að leysa út lyf í neyðartilfellum. Fatamiðstöð, mönnuð sjálfboðaliðum, hefur aftur á móti verið lokað tímabundið.

„Við aðlögum starfið og þjónustuna eftir því sem aðstæður breytast í samfélaginu og undirbúum okkur fyrir aukinn fjölda umsókna um efnislega aðstoð á næstu vikum og mánuðum. Félagsráðgjafar okkar finna að fólk sem býr við efnislegan skort er nú kvíðið og veita því sálrænan stuðning í auknum mæli,“ segir Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, í tilkynningunni. „Við höldum að sjálfsögðu líka áfram öflugu starfi í þágu fólks sem býr við afar erfið skilyrði í einna fátækustu samfélögum heims.“

Fólk sem býr við fátækt getur leitað til Hjálparstarfs kirkjunnar að Háaleitisbraut 66, neðri hæð Grensáskirkju, 103 Reykjavík, virka daga klukkan 10 – 15.30. Vegna samkomubanns biður Hjálparstarfið fólk um að hringja fyrst í síma 5284400 eða senda tölvupóst á netfangið vilborg@help.is og bóka tíma með félagsráðgjafa. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa prestar þjóðkirkjunnar milligöngu um aðstoð.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur nú hafið fjársöfnun með því að senda landsmönnum valgreiðslu í heimabanka að upphæð 2.400 krónum.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert