Innbrotum og þjófnuðum fækkar

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 13 tilkynningar um símaþjófnað í mars, …
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 13 tilkynningar um símaþjófnað í mars, samanborið við 35 í febrúar. AFP

Tilkynningum um innbrot og þjófnaði fækkar milli mánaða, ekki síst hvað varðar þjófnað á farsímum og innbrotum í ökutæki. Þetta er meðal þess sem fram kemur í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir mars 2020. 

Alls voru 514 hegningarlagabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í mars og fækkaði brotum um 233 á milli mánaða. Hafa ber í huga að tölur fyrir mars eru teknar út tveimur vikum fyrr en venjulega sem getur haft áhrif á fjölda skráðra mála og því mikilvægt að túlka þróun í mars 2020 mjög varlega, segir í tilkynningu frá lögreglu. Ekki er því hægt að draga þá ályktun að útbreiðsla kórónuveirunnar hér á landi tengist fækkun tilkynntra brota beint. Tölur fyrir mars verða uppfærðar í næstu skýrslu.

218 tilkynningar um þjófnaði bárust í mánuðinum og 50 tilkynningar um innbrot. 13 tilkynningar bárust um símaþjófnað, samanborið við 35 í febrúar. Af innbrotum fækkaði innbrotum í ökutæki hlutfallslega mest. 

Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar

Skráðum ofbeldisbrotum fækkaði nokkuð á milli mánaða og á fækkunin við um bæði minniháttar og meiriháttar líkamsárásir. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði þó á milli mánaða. 

Skráðum fíkniefnabrotum fækkar lítillega á milli mánaða og var eitt stórfelld fíkniefnabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í mars. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fækkaði töluvert á milli mánaða líkt og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Í mars voru skráð 564 umferðarlagabrot, að hraðamyndavélum undanskildum. Það sem af er ári hafa verið skráð um 24 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan. Vert er að taka fram að skráðum umferðarlagabrotum fækkaði töluvert miðaða við útreiknuð mörk fyrir síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert