Mikilvægur gervi„málsháttur“ fer á flug

Þó málshátturinn sé ekki frá Nóa Síríus kominn þá taka …
Þó málshátturinn sé ekki frá Nóa Síríus kominn þá taka þau heilshugar undir skilaboðin. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Haltu þig heima um páskana, kveðja Víðir.“ Svo hljóðar „málsháttur“ sem gengið hefur á netinu og virðist hafa komið úr páskaeggi frá Nóa Síríus. Svo er þó ekki raunin, heldur virðist einhver sniðugur netverji hafa tekið sig til og sett inn nýjan texta á myndina þar sem upprunalegi málshátturinn var.

Mikilvæg skilaboð til allra um páskana.
Mikilvæg skilaboð til allra um páskana.

Nói Síríus var þó ekki alveg svona snar í snúningum enda komu fyrirmælin frá Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra, bara núna í vikunni, en væntanlega er lengra síðan páskaeggin voru framleidd. Víðir hefur á blaðamannafundum vegna kórónuveirunnar hvatt fólk til að ferðast eingöngu innanhúss um páskana og sleppa öllum bústaðaferðum.

„Málshættirnir okkar innihalda yfirleitt skemmtileg og góð heilræði en þarna eru sennilega mikilvægustu skilaboð þessara páska!“ segir í svari Helgu Beck, markaðsstjóra Nóa Síríus. „Þó að málshátturinn sé ekki frá okkur kominn þá tekur Nói Síríus heilshugar undir þetta.“

mbl.is