Níu af tíu í öndunarvél voru karlar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Af þeim tíu einstaklingum sem voru í öndunarvél hérlendis í gær eftir að hafa sýkst af kórónuveirunni voru níu karlar. Þetta sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í Kastljósi.

Veiran er ólíkindatól 

Hann sagði veiruna vera ólíkindatól og að karlmenn fari miklu verr út úr henni en konur. „Þessi veira virðist vera búin að sjá þennan mun og nýta sér hann,“ sagði hann og átti við muninn á körlum og konum. „Það er með ólíkindum hversu mikið bil er á milli þeirra sem fara vel og illa út úr þessu.“

Kári sagði veiruna hafi mikinn möguleika á að stökkbreyta sér. „Hægt og hægt verður til veira sem getur látið sér líða mjög vel í mannsskepnunni og unnið henni töluvert mikinn skaða. Það er hættan og það er ógnvekjandi. Það er líka mögulegt að stökkbreytingin geri veiruna skaðminni.“

11-12 þúsund í skimun

Hann greindi frá því að Íslensk erfðagreining hefði skimað í kringum 11 til 12 þúsund manns við veirunni. Hann sagði 0,9% af þeim sem hafa komið til þeirra hafa borið veiruna. „Það er býsna stór fjöldi,“ sagði hann. Miðað við það væru í kringum 3.400 manns sýktir hérlendis. Hann sagði þetta þó geta verið ofmat því fólk sem kemur í skimun hljóti að hafa sérstaka ástæðu til að vera hrætt við veiruna. Hann vonar að raunveruleg tíðni sýktra í samfélaginu sé á milli 0,5% til 1%.

Í dag byrjaði ÍE að taka slembiúrtak vegna veirunnar og eru fyrstu niðurstöður væntanlegar í kvöld. Á föstudagskvöld verða komnar niðurstöður fyrir um 1.500 manns. „Það ætti að segja okkur í eitt skipti fyrir öll hversu mikil tíðni er á höfuðborgarsvæðinu.“

Vonandi bóluefni í lok ársins

Kári sagðist jafnframt trúa því að gott bóluefni við veirunni verði komið í lok þessa árs. Einnig sagðist hann styðja aðgerðir gegn veirunni hérlendis og er ánægður með hversu lítið ríkisstjórnin hefur skipt sér af málum.

mbl.is