Tillaga um skerðingu mótframlags

Þrátt fyrir að forysta Alþýðusambands hafi hafnað því að fresta hækkun launa nú um mánaðamótin vegna erfiðleika fyrirtækjanna í landinu hafa verið óformlegar samningaumleitanir milli einstakra verkalýðsforingja og forystumanna úr atvinnulífi um aðrar tilslakanir sem gætu komið að sömu notum.

Samtök atvinnulífsins lögðu beinar tillögur þessa efnis fyrir ASÍ í fyrradag, skv. heimildum blaðsins, og gáfu stuttan frest til svara. Hann mun liðinn en þreifingar héldu áfram í gær. „Boltinn liggur hjá Alþýðusambandi Íslands,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við mbl.is í gærkvöldi og bætti við: „Ég mun tjá mig um þetta á morgun.“

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fólst meðal annars í tilboði SA að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrisgreiðslum yrði lækkað tímabundið. Það er mjög í anda þess sem Vilhjálmur Birgisson, 1. varaforseti ASÍ, sagði við Morgunblaðið í fyrrakvöld. Hann sagði að enginn myndi finna fyrir skerðingu mótframlagsins en hún myndi skila atvinnulífinu sama ávinningi og frestun launahækkana. Samkvæmt heimildum blaðsins hafa verkalýðsforingjar viðrað slíkar hugmyndir við stjórnarþingmenn og spurt hvort eitthvað væri hægt að liðka fyrir. Stjórnvöld halda hins vegar að sér höndum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert