Tveggja stafa frosttölur

Í dag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa vestanátt. Víða má búast við éljum, síst þó á Suðausturlandi. „Það er að kólna hjá okkur og síðdegis verður komið frost á bilinu 0 til 5 stig. Undir kvöld snýst vindur til norðlægrar áttar og snjókomubakki kemur inn á norðanvert landið, en þá má búast við stöku éljum syðra. Gular viðvaranir vegna hríðar eru í gildi seinnipartinn í dag og til fyrramáls á Vestfjörðum og Norðurlandi.

Á morgun gengur norðanáttin niður. Það léttir til um landið sunnan- og vestanvert og er sólríkur og fallegur dagur í vændum á þeim slóðum. Á Norður- og Austurlandi eru horfur á að dálítil él láti á sér kræla. Annað kvöld verður veður orðið skaplegt á landinu og úrkomulaust að mestu, en þá herðir á frosti og gætu tveggja stafa frosttölur mælst í flestum landshlutum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að reikna megi með því að færð spillist á lengri leiðum í kvöld á Norðurlandi og Vestfjörðum. 

Veðrið á mbl.is

Gul viðvörun tekur gildi á Vestfjörðum klukkan 14 og gildir þar til klukkan 4 í nótt. „Allhvöss eða hvöss norðanátt, snjókoma og skafrenningur. Lélegt skyggni og versnandi akstursskilyrði.“

Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur gul viðvörun gildi klukkan 15 og gildir hún til klukkan 6 í fyrramálið. „Allhvöss eða hvöss norðanátt, snjókoma og skafrenningur. Lélegt skyggni og versnandi akstursskilyrði.“
Á Norðurlandi eystra er gul viðvörun í gildi frá klukkan 16 til klukkan 6 í fyrramálið. „Allhvöss norðlæg átt, snjókoma og skafrenningur. Lélegt skyggni og versnandi akstursskilyrði.“
Veðurspá fyrir næstu daga

Gengur í vestan 13-20 m/s með morgninum. Víða él, síst þó á Suðausturlandi. Kólnandi veður, frost 0 til 5 stig síðdegis. Norðlægari vindur undir kvöld með snjókomu á norðurhelmingi landsins, en stöku éljum syðra.

Minnkandi norðanátt á morgun, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s síðdegis. Léttir til um landið sunnan- og vestanvert, en dálítil él á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 7 stig og herðir á frosti um kvöldið.

Á fimmtudag:

Minnkandi norðanátt, 5-13 m/s síðdegis, en hvassara suðaustan til. Léttir til um landið sunnan- og vestanvert, en dálítil él á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 7 stig og herðir á frosti um kvöldið.

Á föstudag:
Norðaustan 5-13 og él á norðanverðu landinu, en bjart veður sunnan heiða. Frost 1 til 10 stig, mildast syðst. Vaxandi austanátt og fer að snjóa við suðurströndina undir kvöld.

Á laugardag:
Gengur í norðaustan storm með snjókomu víða um land. Frost 1 til 8 stig, kaldast norðanlands.

Á sunnudag:
Norðaustan stormur og snjókoma framan af degi. Snýst í hægari sunnanátt eftir hádegi um landið sunnan- og austanvert með rigningu og hlýnar.

Á mánudag:
Suðlæg eða breytileg átt og víða rigning eða slydda. Hiti 1 til 5 stig. Suðvestanátt um kvöldið með éljum sunnan- og vestanlands og hiti um frostmark.

Á þriðjudag:
Breytileg átt og dálítil él í flestum landshlutum. Hiti kringum frostmark yfir daginn.

Hálka á Hellisheiði

Víða hefur éljað og þar er því einhver hálka eða snjóþekja að því er segir í færslu Vegagerðarinnar á Twitter. Þar kemur fram að það er snjór eða hálka og éljagangur á köflum á Vestfjörðum. Varað er við flughálku á Kleifaheiði.

Á Vesturlandi er hálkublettir eða snjóþekja á sumum leiðum. Á Suðvesturlandi eru hálkublettir á köflum og hálka á Sandskeiði og Hellisheiði.

mbl.is