Um 100 háskólanemar aðstoða smitrakningarteymið

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á …
Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að störfum hjá smitrakningarteyminu. Með henni á myndinni er Jóhann Björn Skúlason frá héraðssaksóknara. Ljósmynd/Lögreglan

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur starfað með smitrakningarteymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra nánast frá stofnun teymisins í lok febrúar. Í upphafi hélt hún utan um tölfræði fyrir sóttvarnalækni en í dag samanstendur teymið af fjórum 12-14 manna teymum. Teymin eru skipuð lögreglu og heilbrigðisstarfsmönnum en vegna aukinna umsvifa hafa nemendur á heilbrigðisvísindasviði veitt þeim liðsinni með úthringingum. 

„Fyrst var þetta rosalega mikil vinna og mitt starf fólst í því að reyna að hafa uppi á fólki og finna símanúmer og setja inn í grunninn,“ segir Marta Kristín, sem hóf störf hjá teyminu nokkrum dögum eftir að því var komið á fót eftir að fyrsta smitið greindist hér á landi 28. febrúar. Grunnurinn sem notast er við í dag var þá ekki til. „Það var verið að búa þetta til jafnóðum. Í upphafi vorum við bara að nota Excel-skjal.“

Alltaf stutt í grínið

Um tveimur vikum eftir að rakningarvinnan hófst var gagnagrunnur tekinn í notkun sem sýnir smit á landsvísu en Samsýn sá um hönnun gagnagrunnsins. „Mín vinna snerist um hvernig við ætluðum að koma gögnum inn í grunninn af því að útkoman verður aldrei betri heldur en það sem fer inn í hann. Framan af var mjög mikil vinna sem fór í að koma þessum gagnagrunni í loftið og sú vinna þurfti alltaf að gerast eftir að venjulegri vinnu lauk þannig þetta var mjög mikið álag. Það hafa allir lagst á eitt og það er svolítið andinn hérna, það ætla allir að láta þetta ganga og leggja sitt af mörkum,“ segir Marta Kristín. Alls hafa um 170 manns aðgang að skráningakerfi gagnagrunnsins í dag, en í fyrstu höfðu aðeins fimm aðgang að kerfinu. 

Í upphafi var um eitt samsett teymi að ræða en í dag er unnið á fjórum vöktum og eru 12-14 á hverri vakt. Tvær af vöktunum fjórum eru í svokallaðri vinnusóttkví. „Sumir búa á hóteli og eru ekki í tengslum við fjölskylduna sína og aðrir hafa ákveðið að taka vinnusóttkvína heima, það er að segja að þegar þau eru ekki í vinnunni fara þau heim en þurfa þá að gæta allra varúðarráðstafana eins og maður gerir þegar maður er í sóttkví. Það er líka álag. En það er nú samt alltaf stutt í grínið, þetta er mjög góður hópur og það er ekki annað hægt en að hrósa þeim öllum.“

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymsins, Áslaug Salka Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá …
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymsins, Áslaug Salka Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá embætti landlæknis, og Ragna Gústafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Ljósmynd/Lögreglan

Nemendur boðnir og búnir til að aðstoða

Starf teymisins hefur gengið vel en með fjölgun greindra smita hefur róðurinn þyngst, eðlilega. Í upphafi síðustu viku var óskað eftir aðstoð frá nemendum á heilbrigðisvísindasviði. Viðbrögðin voru vonum framar og nú hafa um hundrað nemendur á sviðinu veitt rakningarteyminu aðstoð sína og hringt mörg hundruð símtöl.   

„Þetta kom til vegna þess að þegar við vorum að byrja vorum við að kalla eftir fluglistum en eftir því sem löndunum fjölgaði sem voru skilgreind sem hááhættusvæði þurfti að taka þær flugvélar eins og þær lögðu sig og setja í sóttkví. Fluglistarnir eru þannig að það eru oft ekki mjög góðar upplýsingar í þeim þannig að það þarf að vinna þá til að fá nothæfar upplýsingar og til viðbótar við öll smitin sem þurfti að rekja hér á landi var þetta orðin ofboðslega mikil vinna,“ segir Marta Kristín. Upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu forvann því listana og þeim var síðan komið til nemenda á heilbrigðisvísindasviði. „Þau tóku þessu verkefni fagnandi og eru að vinna þetta verkefni ótrúlega vel að mér skilst,“ segir Marta Kristín. 

Ein þessara nemanda er Auður Kristjánsdóttir, meistaranemi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. „Ég vissi að ég hafði tíma, ég er bara að vinna í lokaverkefninu mínu heima. Ég bý ein þannig ég hef nægan lausan tíma og svo fannst mér líka gaman að taka þátt í þessu. Þessi veira hefur lítil áhrif á mig og því fannst mér gaman að geta tekið þátt í að hægja á útbreiðslunni,“ segir Auður. 

Auður Kristjánsdóttir er í hópi um 100 nema við heilbrigðisvísindasvið …
Auður Kristjánsdóttir er í hópi um 100 nema við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands sem aðstoða við úthringingar hjá smitrakningarteyminu. Til að dreifa huganum frá veirunni reynir Auður að hreyfa sig daglega. Ljósmynd/Aðsend

Nánast allir taka símtalinu vel

Hún hringdi fyrsta símtalið á miðvikudaginn í síðustu viku og viðurkennir að hún hafi  fundið fyrir svolitlu stressi þegar hún hringdi fyrstu símtölin. „En við fengum skjal með ítarlegum leiðbeiningum og stöðluðu viðtali og með því fylgdu góðar upplýsingar um sóttkví og allt sem fólk gæti mögulega spurt um. Þetta var því fljótt að komast upp í æfingu og það voru svo margir sem tóku mér vel og þökkuðu fyrir að ég væri að gera þetta og það var mjög uppörvandi.“ Símtölin eru mis mörg eftir vakt en Auður hefur tekið allt frá 12 upp í 25 símtöl á hverri vakt. Samtölin eru að sjálfsögðu tekin í trúnaði og hefur Auður skrifað undir þagnarskyldu eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn og nemar sem eru byrjaðir að vinna í heilbrigðiskerfinu, en hún hefur verið í verknámi.  

Auður segir að reynsla hennar úr náminu hafi nýst vel við símtölin en að hún hafi einnig lært margt nýtt. „Við höfum fengið þjálfun í nánum samskiptum við fólk og ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið í þessu og að útskýra hluti vel, það er að vera ekki með miklar málalengingar. Það er líka mikilvægt í okkar starfi að vera með sóttvarnir í lagi.“

Mikil einvera einkennir líf Auðar þessa dagana, þar sem hún er ein heima flesta daga, ýmist að skrifa meistararitgerð eða að störfum fyrir smitrakningarteymið. „Það erfiðasta fyrir mig er að vera mikið ein en mér finnst ég vera svo heppin, það eru svo margir sem verða fyrir miklu meiri áhrifum vegna veirunnar.“ Auður reynir samt að hugsa um eitthvað annað en kórónuveiruna, til dæmis með því að hreyfa sig daglega. 

Auður sér fyrir sé að starfa með smitrakningateyminu á meðan krafta hennar er enn óskað, en ekki sér fyrir endann á vinnu teymisins.

Mikil ánægja með vinnu teymisins

„Ég hef ekki heyrt neitt annað en að sóttvarnalæknir sé ánægður með þá vinnu sem er unnin í teyminu og vilji halda starfi smitrakningateymisins áfram þannig ég sé fram á það að við höldum áfram og grunnurinn okkar verði betri og betri. Hann er núna fljótlega að fá beintengingu inn á grunn veirufræðideildarinnar til dæmis, þannig að þá fáum við jákvæðar niðurstöður beint úr þeim grunni inn í covid-19 grunninn,“ segir Marta Kristín.

Þá stendur einnig til að staðfest smit frá Íslenskri erfðagreiningu verði lesin beint inn í grunninn. Markmiðið er að búa til einn heildstæðan covid-19-grunn sem sækir viðeigandi upplýsingar úr öðrum gagnagrunnum. „Grunnurinn er þegar farinn að tengjast upplýsingum úr Heilsuveru, við erum að tengjast grunni veirudeildarinnar og Decode og líklegt er að tengingar við ákveðnar upplýsingar úr fleiri gagnagrunnum eigi eftir að bætast við. “

Marta Kristín segir að í raun hafi fátt komið henni á óvart í starfi hennar hjá teyminu, en í dag eru akkúrat fjórar vikur síðan hún varð hluti af teyminu. „En það sem er kannski skemmtilegast við þessa vinnu að það er alltaf allt að breytast. Í upphafi var ég að taka út tölfræði beint fyrir sóttvarnalækni en nú verður þetta alltaf sjálfvirkara og sjálfvirkara.“

Marta Kristín segir að það sem helst standi upp úr er hversu fólk er viljugt að leggja mikið á sig. „Það er gaman að sjá hvað það er mikill samhugur.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert