Biðröð út á götu hjá sýslumanni dag eftir dag

Löng biðröð myndaðist fyrir utan hjá afgreiðslu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu …
Löng biðröð myndaðist fyrir utan hjá afgreiðslu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í dag en röðin var til fyrirmyndar þar sem farið var eftir tveggja metra reglunni. Ljósmynd/Aðsend

Löng biðröð hefur myndast fyrir utan skrifstofu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Hlíðarsmára í Kópavogi eftir að hert samkomubann tók gildi og var dagurinn í dag engin undantekning. Þó nokkrir þurftu frá að hverfa án þess að hafa fengið afgreiðslu þegar skrifstofunni var lokað klukkan þrjú.  

„Það eru ekki nema 20 á afgreiðsluhæðinni í einu og þar af eru átta starfsmenn,“ segir Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is Löng biðröð var fyrir utan skrifstofu sýslumannsins í Kópavogi meira og minna í allan dag, ekki síst eftir hádegi. „Það var bara betra veður núna,“ segir Þórólfur, en síðustu daga hefur fólk þurft að standa úti í ýmsum veðrum. 

Þórólfur segir að aðstaðan inni í húsnæðinu sé fullnýtt nú þegar og því er það óhjákvæmilegt að biðröð myndist fyrir utan. „Það er búið að skilgreina rýmin með tilliti til þeirra varna sem við verðum að hafa uppi. Það kemur ekki til greina að fara yfir þessa tuttugu,“ segir hann. 

Kemur ekki til greina að hafa opið í hádeginu

Afgreiðslan er lokuð í hádeginu og Þórólfur segir að ekki komi til greina að breyta því fyrirkomulagi. „Þetta er nauðsynlegt fyrir fólkið sem er í framlínunni að geta tekið hádegisverð. Þetta eru 50 mínútur og þetta verður að vera svona. Við erum að gera það besta sem við getum miðað við aðstæður.“

Þórólfur segir að helstu mistökin sem fólk geri er að koma saman, tveir og jafnvel fleiri, þó að erindið varði bara einn. „Þá hleypum við ekki nema einum inn og hinir verða kannski fúlir yfir því.“

Ábendingar hafa borist sýslumanni um að taka upp númerakerfi sem gerir fólki kleift að fylgjast með úr bílum sínum en Þórólfur segir ekki koma til greina að innleiða síkt. 

„Hvað eigum við að gera við fólk sem kemur gangandi eða í strætó, það þurfa allir að sitja við sama borð, það er bara þannig,“ segir Þórólfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert