„Ég upplifi mikla samheldni í samfélaginu“

Jón Páll gerir ráð fyrir því að smitunum á svæðinu …
Jón Páll gerir ráð fyrir því að smitunum á svæðinu fjölgi enn frekar mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við berum mikið traust til þeirra aðila sem setja þetta samkomubann og ég hef ekki heyrt einn aðila hallmæla því. Fólk bara treystir þessu og við vitum að þetta er gert til að ná utan um þau smit sem eru í bænum.“

Þetta segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, en aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum, í samráði við sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ákvað í gær að herða aðgerðir í Bolungarvík, Hnífsdal og Ísafirði til að sporna við frekari útbreiðslu kórónuveirunnar á svæðinu. Alls hafa 24 smit komið upp á Vestfjörðum; 12 í Bolungarvík og 12 á Ísafirði. Þá eru 285 einstaklingar á svæðinu í sóttkví.

„Við erum að sjá mjög mikla fjölgun og ég á von á því að smitunum fjölgi. Þegar smit koma upp fyrst þá fjölgar þeim mjög hratt,“ segir Jón Páll. Hann gerir þó ekki ráð fyrir því að smitin verði fleiri en hægt verði að ráða við. Hertar aðgerðir muni skila sínu. „Ég er mjög ánægður með að við erum að taka sterkar ákvarðanir. Það er miklu betra að byrja að gera of mikið og draga svo úr en hitt.“

Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er lokun skóla og leikskóla nema fyrir börn á forgangslistum. Þá er samkomubann miðað við fimm manns og fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum má að hámarki vera 30 manns í einu. Fólk er jafnframt hvatt til að halda sig heima og virða samskiptafjarlægð.

Nauðsynlegt að hafa eitthvað að hlakka til

Jón Páll segir þetta vissulega hafa orðið til þess að hægt hafi verulega á allri starfsemi í bænum, en stóru lykilfyrirtækin eru þó enn opin. Mjólkurvinnslan Arna og fiskvinnslufyrirtækið Jakob Valgeir. Togarinn Sirrý er þó stopp vegna gruns um smit. Þessi fyrirtæki hafa gert viðeigandi sóttvarnaráðstafanir og fá undanþágu til að halda starfsemi áfram.

„Ég upplifi mikla samheldni í samfélaginu, við erum tiltölulega lítið, þúsund manna samfélag, og þá verður til mikil samheldni þegar eitthvað bjátar á. Þetta hefur gengið mjög vel. Allur þessi grunnrekstur hefur haldið sér. Við náðum að moka göturnar, ruslið er sótt og búðin er opin. Og það er hægt að fá sér pítsu á fimmtudagskvöldum.“ Hann segir mörg fyrirtæki búin að koma sér í hálfgert var, farin í páskafrí og ætli að taka stöðuna eftir páska. Þá verði líka betur hægt að sjá heildarmyndina. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um það hvenær hertum aðgerðum á svæðinu verður aflétt.

Jón Páll leggur mikla áherslu á að þetta sé tímabundið ástand og nauðsynlegt sé að hafa eitthvað til að hlakka til. „Ég hlakka til vorsins og sumarsins. Ég sé fyrir mér í hillingum vestfirska sumarnótt þar sem við komum öll saman og rifjum þessa tíma sem við erum á akkúrat núna. Þá verður komin upp önnur staða og við byrjuð að byggja okkur upp.“ Hann segir framtíðina bjarta fyrir Bolvíkinga. Það standi til að byggja upp fiskeldi og svo hafi fengist góður styrkur til að byggja upp ferðamannastað á Bolafjalli.

Mikilvægt að fólk viðurkenni kvíðann

Hann segist engu að síður skynja að fólk sé kvíðið og það sé eðlilegt. „Það er mjög mikilvægt að fólk viðurkenni að það kvíði fyrir því að það sjálft eða ástvinir veikist. Ég sjálfur á aldraða móður sem ég þori ekki að fara til. Það er eðlilegt og ég hvet alla til að byrgja það ekki inni. Okkar hlutverk fyrst og fremst er að halda utan um fólkið og veita því sem bestar upplýsingar. Við erum að hvetja fólk til þess að fara í göngutúr og gera það sem hægt er.“

Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði, en tuttugu starfsmenn eru í sóttkví og kalla hefur þurft út liðsauka frá bakvarðasveit. Kona Jóns Páls er skurðhjúkrunarfræðingur á heilbrigðisstofnuninni og hann þekkir því mjög vel það góða starf sem þar er unnið. „Þau taka þetta mjög föstum tökum. Ég fæ að fylgjast með á hliðarlínunni í gegnum aðgerðastjórn sem við sveitarstjórnin á svæðinu erum þátttakendur í. Þetta er fólk sem leggur allt sitt til að koma okkur í gegnum þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert