Ekki klædd á leið til tunglsins að ástæðulausu

Sjúkraflutningamaður sem smitaðist í starfi hvetur fólk að láta vita …
Sjúkraflutningamaður sem smitaðist í starfi hvetur fólk að láta vita ef grunur er um smit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar við mætum til ykkar, klædd eins og við séum að fara til tunglsins, í sóttvarnagalla, með grímur, með gleraugu og hanska, þá er það svo við getum haldið áfram að vinna fyrir ykkur, og til að við komumst heil heim til fjölskyldna okkar úr vinnunni.“ Þetta segir Loftur Þór Einarsson sjúkraflutningamaður sem smitaðist af kórónuveirunni í útkalli. 

Hann vill ítreka fyrir fólki að gefa upplýsingar um hvort það gæti mögulega verið smitað af kórónuveirunni þegar viðbragðsaðilar eru kallaðir út. Til þess að vernda fólk í framlínustörfum. 

Loftur hefur ekki verið með mikil einkenni COVID-19-sjúkdómsins og líðan hans er góð. Hann hefur verið í einangrun síðan 21. mars og losnar vonandi úr einangrun 6. apríl.

Af starfsmönnum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru í dag 3 starfsmenn í einangrun, 4 í sóttkví og 6 hafa lokið sóttkví og einangrun.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

 

 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert