Ekki tímabært að ræða úrsögn úr ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. mbl.is/Hari

Ekki er tímabært að ræða úrsögn VR úr Alþýðusambandi Íslands þrátt fyrir að formaður VR hafi sagt sig úr miðstjórn ASÍ í kjölfar óánægju með aðgerðaleysi vegna bágrar stöðu á vinnumarkaði.

Stjórn VR fundaði í gærkvöldi vegna málsins og segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að einhugur sé í stjórninni vegna tillögu hans og fleiri um að skerða mótframlag at­vinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóði tíma­bundið.

Tillögunni var hafnað og Ragnar Þór, Vilhjálmur Birgisson, 1. varaforseti ASÍ, og Harpa Sæv­ars­dótt­ir, vara­formaður VR, sögðu sig úr miðstjórn ASÍ í kjölfarið. VR-ingar í miðstjórn ASÍ styðja aðgerðirnar en Ragnar segir að aðrir úr miðstjórninni verði sjálfir að fá að segja sína afstöðu.

Ragnar segir að enn sé vilji innan VR til að reyna að komast að einhverri niðurstöðu í málinu og því þyki honum ekki rétt að slíta sig frá ASÍ.

„Þetta snýst ekkert endilega um okkar hugmyndir heldur frekar að mér finnst ekki í boði að gera ekki neitt,“ segir Ragnar.

Hann kveðst vongóður um að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins setjist niður og fari að velta fyrir sér möguleikum í staðinn fyrir að hafna öllum hugmyndum.

Stjórn VR hvetur samninganefnd ASÍ til þess að endurskoða afstöðu sína til þessa máls í ljósi mjög sérstakra og viðkvæmra aðstæðna í þjóðfélaginu. Mikilvægt sé að leggja til hliðar deilumál þegar nauðsyn krefur til þess að allir geti lagst á árarnar og fundið lausn. Það hafi áður blásið sterkir vindar á vettvangi ASÍ og ástæðulaust að láta stöðva sig nú þegar ríður á að allir standi saman til að verja kjör launafólks í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert