Gjöfin er eina eignin

Ólafur Axelsson og Guðmundur Karl Brynjarsson með krossinn.
Ólafur Axelsson og Guðmundur Karl Brynjarsson með krossinn. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Axelsson, fyrrverandi smiður í Árbæjarsafni, hefur ákveðið að gefa KFUM og KFUK áletraðan róðukross í keðju, sem hann fékk að gjöf frá séra Friðriki Friðrikssyni fyrir um 70 árum. Friðrik fékk hann hins vegar í kveðjugjöf eftir að hafa verið í Íslendingabyggðum í Kanada 1913-1916 og meðal annars þjónað Skjaldborgarsöfnuðinum, skammt frá Selkirk í Manitoba.

Ólafur fæddist á Barónsstíg 14 í Reykjavík og þaðan var stutt í KFUM á Amtmannsstíg. Hann segir að frændi sinn, sem var þremur árum eldri, hafi tekið sig með á fundi og eitt sinn á sjötta áratugnum, þegar hann hafi verið átta eða níu ára, hafi hann sem oftar setið á spjalli við séra Friðrik.

„Þegar ég stóð upp og ætlaði að fara tók hann upp kross og sagði að ég mætti eiga hann,“ rifjar Ólafur upp. „Ég þakkaði fyrir, pabbi setti í hann tvo nagla, sem vantaði, og ég var með krossinn uppi á vegg heima þar til við fluttum í Ársali fyrir tæplega tuttugu árum.“

Í ævisögu Friðriks kemur fram að í Kanada hafi hann fengið til minja fallegt krossmark með silfurlitaðri Kristsmynd á og það hafi verið kærkominn gripur. Ólafur segist ekki hafa viljað sitja uppi með krossinn og því ákveðið að gefa KFUM hann. „Ég pakkaði honum vel inn fyrir flutningana. Svo vel að ég fann hann ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum í kassa eftir að hafa leitað og leitað og farið oft í alla kassa.“

Sögulegt gildi

Aftan á krossinum er letrað: „Séra Fr. Friðriksson. Frá Skjaldborg 19. sept. 1915“. Ólafur segist ekki hafa tekið eftir áletruninni fyrr en áratugum eftir að hann fékk gjöfina. Hann segist vera grúskari af guðs náð og hafi kynnt sér sögu séra Friðriks til að reyna að fræðast meira um krossinn. Í kjölfarið hafi hann haft samband við séra Guðmund Karl Brynjarsson í Lindakirkju í Kópavogi og beðið hann að koma krossinum í réttar hendur. „Ef fólk vill ekki að menn og málefni gleymist er best að koma hlutum sem tengjast því á söfn og krossinn er best geymdur í Friðriksstofu í KFUM.“

Guðmundur Karl segir að áletrunin setji krossinn í sögulegt samhengi og auki sögulegt gildi hans. „Hugsanlega hefði hann ekki varðveist svona vel ef sr. Friðrik hefði ekki gefið þessum litla dreng þennan kross á sínum tíma,“ segir hann.

Ólafur leggur áherslu á að hann sé ekki safnari. Ekki alls fyrir löngu hafi sonur hans litið inn í geymsluna. „„Við bræðurnir þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu,“ sagði hann og það er lýsandi dæmi um enga söfnunaráráttu. Ég sé aldrei eftir neinu sem ég gef því það eina sem þú átt er það sem þú gefur.“

Áletraður róðukross sem Ólafur fékk að gjöf frá séra Friðriki …
Áletraður róðukross sem Ólafur fékk að gjöf frá séra Friðriki Friðrikssyni fyrir um 70 árum. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »