Halda eftir kortagreiðslum

Greiðslumiðlunarfyrirtækin eru að endurmeta áhættu sína vegna endurgreiðslukrafna viðskiptavina ferðaþjónustufyrirtækja sem greitt hafa fyrir þjónustuna fyrirfram og ekki enn notað hana.

Eitt þeirra hefur sent viðskiptavinum sínum beiðni um ítarlegar upplýsingar um þetta efni og frestað á meðan á úrvinnslu stendur útgreiðslu kreditkortagreiðslna til fyrirtækja.

Greiðslurnar áttu að berast fyrirtækjunum 31. mars og treystu sum á að geta notað þær til að greiða starfsfólki laun. „Það er nógu mikill slagur að standa í þessu á erfiðum tímum þó að ekki bætist þetta á. Þetta eru peningar sem ég á, það getur ekki farið á milli mála, og ég lít á þetta sem fjárdrátt,“ segir hótelstjóri á Suðurlandi sem varð fyrir því að fá ekki kreditkortapeningana frá Kortaþjónustunni í fyrradag.

Þegar Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Kortaþjónustunnar, er spurður almennt um ástæðu þess að fyrirtækið telur nauðsynlegt að halda eftir kreditkortafjármunum fyrirtækja minnir hann á að Visa og Mastercard eigi kröfu á endurgreiðslu þar til þjónusta er veitt.

Ferðaskrifstofur í vanda

Ferðaskrifstofur eiga einnig í miklum vanda vegna endurgreiðslumála, og hafa fyrirtækin fundað um málið með ráðamönnum síðustu tvær vikur, meðal annars til að fá heimild til að endurgreiða pakkaferðir innan 60 daga í stað 14 daga eins og nú er. Hluti af vanda fyrirtækjanna er að þau hafa sjálf fyrirframgreitt sínum birgjum, eins og Icelandair, en óvíst er með endurgreiðslur úr þeirri áttinni. Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar, gagnrýnir Icelandair fyrir að svara engu um hvenær fyrirtækið hyggst endurgreiða það fé sem Úrval-Útsýn hafði reitt af hendi til þeirra. „Okkar staða er gríðarlega erfið ef Icelandair endurgreiðir okkur seint og illa,“ segir hún í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert