Koma til móts við Kópavogsbúa vegna kórónuveirunnar

mbl.is/Hjörtur

Viðbrögð bæjarstjórnar Kópavogs til að koma til móts við íbúa og fyrirtæki í Kópavogi vegna áhrifa af Covid-19 voru samþykkt í bæjarráði Kópavogs í morgun. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir einhug hafa ríkt um aðgerðirnar.

Meðal þess sem gert verður í Kópavogi er að sumarstörfum verður fjölgað, þar sem áhersla er á fjölbreytni og hvatt til nýsköpunar og skapandi starfa. Leitað verður eftir samstarfi við  nýsköpunarsjóð námsmanna um útfærsluna. Stofnað verður til velferðarvaktar og sumarúrræði fyrir börn í 1.-5. bekk verða aukin.

Þá verður viðhalds- og nýframkvæmdum flýtt, svo sem framkvæmdum og viðhaldi íþróttamannvirkja, framkvæmdum sem tengjast íbúaverkefninu Okkar Kópavogi, endurgerð Kópavogshælisins, ýmsum gatnaframkvæmdum auk þess sem viðhaldsframkvæmdum við göngu- og hjólreiðastíga með bætta lýsingu og aukið öryggi í huga verður flýtt.

Áður hafði bæjarráð samþykkt að veita afslátt á þjónustugjöldum leik- og grunnskóla og frístundaheimila, þar sem þjónusta hefur ekki verið nýtt vegna Covid-19. Einnig var samþykkt að veita greiðslufrest fasteignagjalda í samræmi við önnur sveitarfélög Kragans.

Bæjarstjórn Kópavogs leggur einnig áherslu á að í samvinnu við ríkið verði framkvæmdum innan Kópavogs hrundið af stað, þar á meðal lagningu Arnarnesvegar, byggingu nýrra hjúkrunarrýma við Boðaþing og framkvæmdum sem rúmast innan samgöngusáttmálans sem hafa verið í undirbúningi eins og göngu- og hjólreiðastígum. Þá verði byggðar stúdentaíbúðir á Kársnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert