Launahækkanir í niðursveiflu auka hættu á uppsögnum

„Helsta hættan sem steðjar að launafólki í dag er aukið atvinnuleysi. Tölfræðileg greining á haggögnum sýnir að hækkun launa getur leitt til aukins atvinnuleysis. Hættan er enn meiri þegar illa árar, samdráttur í hagkerfinu leiðir tiltölulega fljótt til aukins atvinnuleysis.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá VR stéttarfélagi eftir að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði sig úr miðstjórn ASÍ. Ragnar vildi að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrði skert tímabundið vegna ástands á vinnumarkaði vegna kórónuveirufaraldursins.

Fram kemur í yfirlýsingu VR að launahækkanir á tímum niðursveiflu geti aukið enn á hættu á uppsögnum. Uppsagnir leiði síðan til minni eftirspurnar í hagkerfinu sem leiði til minni tekna innlendra fyrirtækja, sem aftur ýti undir aukið atvinnuleysi. Að komast hjá auknu atvinnuleysi ætti því að vera eitt af meginmarkmiðum til að sporna gegn dýpri og lengri niðursveiflu en nú þegar blasir við.

Í stað þess að fresta launahækkunum er hægt að fara í aðrar aðgerðir sem munu hafa mun minni áhrif á eftirspurn í hagkerfinu, t.d. að lækka tímabundið mótframlag í lífeyrissjóði úr 11,5% í 8%. Með slíkri aðgerð væri verið að auka ráðstöfunartekjur launafólks og þar með einkaneysluna en skerða tímabundið fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Skilyrði fyrir því að stéttarfélög væru tilbúin að gefa slíkt eftir er að verðlag verði stöðugt á tímabilinu, hækki ekki meira en sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands eða 2,5% á ári,“ segir á vef VR.

„Í raun er ekki verið að gefa eftir mótframlag heldur kaupa tryggingu fyrir því að launafólk verði ekki fyrir kaupmáttarskerðingu. Ef verðbólgan fer af stað verður engin breyting á mótframlagi í lífeyrissjóði og það greitt að fullu. Ef verðbólga verður lág er kaupmáttur tryggður með tímabundinni lækkun á iðgjaldi í lífeyrissjóði. Auk þess má færa fram mjög sterk rök fyrir því að lækkun á launakostnaði leiði af sér minna atvinnuleysi í þeirri kreppu sem við erum á ganga í gegnum þessa dagana,“ segir enn fremur.

Nánar er fjallað um málið á vef VR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert