Óvissustig í Ólafsfjarðarmúla

Ólafsfjarðarmúli.
Ólafsfjarðarmúli.

Ófært er á Þverárfjalli og Siglufjarðarvegi en þæfingsfærð á milli Sauðárkróks og Hofsóss. Óvissustig er í Ólafsfjarðarmúla og Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu. Vegurinn um Víkurskarð er lokaður.

Vetrarfærð er um mest allt land þó síst á Suður- og Suðausturlandi. Verið er að hreinsa vegi eftir nóttina, samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og nokkuð víða eru hálkublettir. Þungfært og skafrenningur er á Bröttubrekku og Fróðárheiði en ófært á Svínadal. Þungfært og lokað er á þó nokkrum leiðum á Vestfjörðum og er verið að hreinsa eftir nóttina.

Þæfingur og skafrenningur er á Fjarðarheiði, en verið er að kanna aðstæður á öðrum leiðum. Nokkrir hreindýrahópar hafa haldið sig við veg á milli Hafnar og Djúpavogs og einnig á Breiðamerkursandi eru vegfarendur beðnir að gæta varúðar. Þungfært er á Lyngdalsheiði. Yfirborðsskemmdir hafa verið töluverðar á Suðurlandi undanfarið vegna hlýinda og mikið um holur. Vegfarendur eru því beðnir að fara með gát að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert