Sex börn yngri en ársgömul hafa greinst með veiruna

Ekkert af þeim 133 börnum með kórónuveiruna hafa veikst alvarlega.
Ekkert af þeim 133 börnum með kórónuveiruna hafa veikst alvarlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert barn af þeim 133 sem hafa greinst með COVID-19-sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur hefur veikst alvarlega. Þetta segir Valtýr Stefán Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Barnaspítala Hringsins.

Af þessum 133 börnum eru flest eldri en 10 ára eða 83 talsins, 50 eru yngri en 10 ára og af þeim eru sex yngri en ársgömul.  

Öll þau börn sem hafa greinst og eru undir eftirliti barnaspítala Hringsins eru heima hjá foreldrum sínum. „Haft er samband við foreldra þeirra ýmist daglega eða annan eða þriðja hvern dag. Það hefur gengið vel,“ segir Valtýr. 

Ekki þurft að leggja börnin inn vegna veikinda

Sum barnanna sem hafa greinst með veiruna hafa orðið lasin en ekkert þeirra hefur þurft að leggja inn vegna veikinda, að frátöldum fjögurra mánaða drengnum sem var lagður inn á sjúkrahús Akureyrar vegna kórónuveirunnar. „Sú innlögn var ekki beinlínis vegna alvarlegra veikinda heldur vegna þess að barnið var lítið og talið rétt að fylgjast með því í sólarhring. Það hefðum við gert óháð því hvort það væri með COVID eða ekki,“ útskýrir Valtýr.

Drengurinn blánaði í hóstakasti og var því ákveðið að fylgjast með honum í sólarhring. Þegar slíkt kemur upp er það ávallt gert hvort sem um RS-vírus er að ræða eða önnur veikindi. „Það endurspeglar ekki að veikindin hafi verið alvarleg,“ segir Valtýr. 

Af öllum þeim börnum sem hafa greinst með veiruna hafa fá þeirra þurft að koma á spítalann í læknismat. Þeim var öllum hleypt heim að lokinni skoðun. 

„Við höfum auðvitað áhyggjur. Við erum undir það búin að börn muni veikjast meira en núna er og þurfi að leggjast inn. Eftir því sem hópurinn stækkar aukast líkur á því,“ segir Valtýr en bætir við: „Við höfum samt ekki sérstakar áhyggjur af börnum. Eins og fram hefur komið sleppa börn almennt betur frá veikindum en fullorðnir.“

Hann ítrekar að við verðum að halda áfram að halda ró okkar og fara eftir tilmælum almannavarna.

Flest börn sem hafa greinst með veiruna eru eldri en …
Flest börn sem hafa greinst með veiruna eru eldri en 10 ára. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert