Sjónvarpa til að viðhalda vinnustaðamenningu

Borðspilahópur starfsmannafélagsins í Klukkinu.
Borðspilahópur starfsmannafélagsins í Klukkinu. Ljósmynd/Aðsend

Líkt og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum vinna nú allir starfsmenn Advania heiman frá sér. Stjórnendur fyrirtækisins vildu tryggja að starfsfólkinu liði þó ennþá eins og það væri hluti af samfélagi þótt hver ynni á sínum stað og ákváðu að stofna sjónvarpsstöð.

„Þetta kom þannig til að þegar við vorum að fara inn í samkomubann og senda fólk heim að vinna veltum við því fyrir okkur hvernig við gætum haldið tengslum við starfsfólk þannig að það myndi upplifa að það tilheyrði ennþá vinnustað en væri ekki bara eitt heima hjá sér að sinna verkefnum,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, í samtali við mbl.is.

Vildu búa til sameiginlega reynslu

„Það sem okkur datt í hug að gera var að vera með fastan punkt, fólk myndi klukka sig inn og búa til einhverja sameiginlega reynslu. Úr varð það sem við köllum Klukkið og það er u.þ.b. hálftíma langur sjónvarpsþáttur sem er sýndur á Workplace á hverjum einasta degi.

Þóra Tómasdóttir upplýsingafulltrúi og Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.
Þóra Tómasdóttir upplýsingafulltrúi og Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.

Þættirnir eru orðnir tólf talsins og kemur sá þrettándi á morgun. Ægir segir búið að taka ýmislegt fyrir í þáttunum, bæði mál sem eru beintengd ástandinu og svo léttari mál.

„Við fengum sálfræðing frá landlæknisembættinu til að koma og tala um hvernig við eigum að fúnkera og tala við börnin okkar og allt þetta. Svo heftur verið jógatími og leikfimistími og við erum búin að fara í gegnum nokkra klúbba hjá starfsmannafélaginu. Spilaklúbburinn var með kynningu á skemmtilegum borðspilum og prjónaklúbburinn var með innlegg. Þetta er mjög fjölbreytt. Svo höfum við líka fjallað um okkur sjálf og lausnirnar sem við erum að bjóða íslensku atvinnulífi til þess að fúnkera í þessu ástandi. Það hefur t.d. mikið mætt á Innu og fjarvinnslu almennt,“ segir Ægir, en fyrir þá sem ekki vita er Inna upplýsingakerfi framhaldsskóla.

Jógatími í Klukkinu.
Jógatími í Klukkinu. Ljósmynd/Aðsend

Ægir segir enda langt því frá að menn séu að verða uppiskroppa með efni fyrir þættina. „Það bætist alltaf við, það er alveg fullt eftir á listanum.“

Spurður um áhorfstölur á Klukkið, sem er á dagskrá alla daga klukkan 13:05, segir Ægir meirihluta starfsmanna fylgjast með. „Svo eru einhverjir sem gera það í línulegri dagskrá og aðrir á ólínulegri, þetta er aðgengilegt hvenær sem fólk vill. Þetta er mjög vinsælt.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert