Sorgleg afstaða þegar snúa þarf bökum saman

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. mynd/bb.is

„Það er sorglegt að menn taki þessa afstöðu þegar við þurfum að standa saman,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verka­lýðsfé­lags Vest­f­irðinga, um úrsagnir Ragnars Þórs Ingólfssonar, Vilhjálms Birgissonar og Hörpu Sævarsdóttur úr miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

Ágrein­ing­ur hefur verið í miðstjórn ASÍ um aðgerðir vegna stöðu á vinnu­markaði vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Ragnar, Vilhjálmur og Harpa vildu að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrði skert tímabundið en því var hafnað og sögðu þau sig úr miðstjórninni í mótmælaskyni en þar á Finnbogi sæti.

Stjórn VR fundaði í gær­kvöldi vegna máls­ins og seg­ir Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, að ein­hug­ur sé í stjórn­inni vegna til­lögu um tímabundið skert mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði.

Finnbogi ítrekar að honum þyki ákvörðun þremenninganna sorgleg og segir að við svona aðstæður, eins og uppi eru í þjóðfélaginu, þurfi fólk að snúa bökum saman.

Finnbogi segir að ákvörðun eins og þessa þurfi að taka á breiðari grundvelli og að miðstjórn ASÍ geti ekki ákveðið að taka réttindi af félagsfólki.

„Ég er á því að réttindi félagsmanna verði ekki skert,“ segir Finnbogi og bendir á að allar svona stórar ákvarðanir þurfi að ræða við félagsfólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert