530 á biðlista eftir innlögn á Vog

Sjúkrahúsið Vogur er eitt af meðferðarheimilum SÁÁ.
Sjúkrahúsið Vogur er eitt af meðferðarheimilum SÁÁ.

Til að taka megi vel ígrundaðar ákvarðanir á grundvelli biðlista á Sjúkrahúsinu Vogi þarf að liggja fyrir faglegt mat þess efnis að allir á biðlistanum hafi raunverulega þörf fyrir þá þjónustu sem um ræðir og að sú þjónusta sé sú sem best henti hverju sinni.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar, þingmanns Miðflokksins, þar sem hann spyr um biðlista á Vogi.

Svandís segir meðal annars að hluti þeirra sem eru á biðlista á Vogi hafi skráð sig sjálfir á hann, án undangengins faglegs mats á því hvort viðkomandi þurfi á innlagnarþjónustu að halda.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í mars 2020 voru 530 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vogi, af þeim voru 115 komnir með innlagnardag á næstu þremur vikum. Að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem eru skráðir á biðlista eftir þjónustu á Vogi ákveða sjálfir að nýta ekki þjónustuna af ýmsum ástæðum. Einnig ber að hafa í huga að ekki er víst að allir sem skráðir eru á biðlista Vogs þurfi á innlagnarþjónustu að halda til þess að leysa neyslu- og fíknivanda, því í sumum tilfellum koma göngudeildarþjónusta og önnur vægari úrræði að sömu notum,“ segir í svari Svandísar.

Leitast verður við að veita öllum sem þess þurfa þjónustu eftir sem stysta bið. Áhersla er lögð á að biðlistar sýni á markvissari hátt raunverulega þjónustustörf og þar séu aðeins þeir sem þurfi og ætli að nýta þjónustuna.

Spurð um fjárhæð þess framlags sem SÁÁ þyrfti til rekstrar Vogs til að geta eytt biðlistum svarar Svandís því að fjárveiting tl SÁÁ hafi veri hækkuð varanlega í fjárlögum fyrir árið 2019 um 150 milljónir króna. Framlög til SÁÁ á fjárlögum fyrir árið í ár eru 1,1 milljarður króna.

mbl.is