Aðeins 0,5 prósent smitaðir í slembiúrtaki

Aðeins sex einstaklingar úr 1.200 manna slembiúrtaki sem Íslensk erfðagreining tók sýni úr vegna kórónuveirunnar reyndust smitaðir. Það er um hálft prósent. Þetta sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Ekki er um endanlegar tölur að ræða en von er niðurstöðum úr fleiri sýnum á morgun.

Kári segir niðurstöðurnar benda til þess að dreifing veirunnar í samfélaginu sé ekki að aukast, heldur frekar að minnka. En tæpt eitt prósent þeirra sýna sem tekin hafa verið hjá þeim sem pantað hafa tíma hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa verið jákvæð fram að þessu.

Niðurstöðurnar bendi þar af leiðandi til þess að okkur sé að takast að hefta útbreiðslu veirunnar með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Öflugri smitrakningu, sóttkví og samkomubanni.

 

mbl.is