Allir vistmenn Bergs í sóttkví

Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarbúningi.
Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarbúningi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir tíu vistmennirnir á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík eru komnir í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Álíka margir starfsmenn hjúkrunarheimilisins eru einnig komnir í sóttkví.

Þetta segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Unnið er að því að fá aðra starfsmenn inn á Berg, meðal annars úr bakvarðasveitum, til að tryggja að starfsemin þar haldist óbreytt. „Það er álag á þessari deild vegna þessa. Allir vistmenn þurfa að vera inni á herbergjunum sínum,“ segir Gylfi og bætir við að verið sé að taka sýni og senda þau til greiningar.

Alls eru tuttugu starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í sóttkví og þar af starfar um helmingur þeirra á Bergi. 24 smit hafa komið upp á Ísafirði; 12 í Bolungarvík og 12 á Ísafirði. 285 eru í sóttkví.

Stofnunin sett á rönguna

„Við erum búin að setja alla stofnunina á rönguna til að undirbúa komu veirunnar og passa að þegar það gerist hafi það ekki of mikil áhrif á starfsemina,“ greinir Gylfi frá. Hann segir álagið á bráðadeild vera nokkuð og heldur meira en venjulega.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Ljósmynd/Aðsend

Á Ísafirði er hjúkrunarheimilið Eyri með þrjátíu rýmum en enginn hefur þurft að fara í sóttkví þar. Búið er að skipta starfsfólkinu niður í teymi. Ef eitthvað kemur upp hjá einu teyminu tekur annað við.

Aðspurður segir hann að enginn liggi inni á spítala á Vestfjörðum með COVID-19. „Við finnum fyrir baráttuanda, samheldni og hlýhug í stofnuninni. Allt samfélagið er mjög samstíga í því að fylgja eftir þessum hertu reglum sem voru settar á síðustu dögum,“ segir Gylfi.

mbl.is