Dómur staðfestur í líkamsárásarmáli fanga

mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóm­s Suður­lands frá því á síðasta ári þar sem tveir fangar á Litla-Hrauni voru dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrr sérstaklega hættulega líkamasárás á annan fanga. Um var að ræða ung­an hæl­is­leit­anda að nafni Houss­in Bsrai, en ársin átti sér stað íþrótta­húsi fang­els­is­ins í janú­ar 2018.

Fram kem­ur í dómi héraðsdóms að menn­irn­ir tveir, Bald­ur Kol­beins­son og Trausti Rafn Henriks­son, hafi í fé­lagi veist að Bsrai með of­beldi. Þeir hafi ít­rekað kýlt hann í bæði höfuð og lík­ama og sparkað í hann á sömu staði, tekið hann hálstaki og stappað á hon­um þar til hann missti meðvit­und. Við þetta varð Bsrai fyr­ir mikl­um lík­am­leg­um áverk­um.

Trausti áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar og krafðist sýknu, en til vara að refsing yrði milduð og að einkaréttarkröfu brotaþola yrði vísað frá. Niðurstaða Landsréttar var hins vegar sú að dómurinn skyldi standa óraskaður og var Trausta gert að greiða allan sakarkostnað málsins fyrir Landsrétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns.

Þeim Baldri og Trausta var í héraðsdómi gert að greiða Bsrai 600 þúsund krón­ur með vöxt­um og máls- og sak­ar­kostnað upp á sam­an­lagt rúm­lega sex millj­ón­ir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert