Furðar sig á Brimi sem greiðir út arð

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins. mbl.is/Ófeigur

Forseti Alþýðusambandsins, Drífa Snædal, ber saman tvö fyrirtæki og viðbrögð þeirra á þessum óvissutímum gagnvart starfsfólki. Hún furðar sig á því að sjávarútvegsfyrirtækið Brim hafi ákveðið að greiða út 1.800 milljónir í arð á sama tíma og Nettó veitir starfsfólki sínu kaupauka.

Hún bendir á að verslunarfólk sé undir gríðarlegu álagi og mæti til vinnu þrátt fyrir sýkingarhættu. Brim er undanþegið samkomubanninu því fyrirtækið er talið þjóðhagslega mikilvægt og þar af leiðandi þurfi starfsfólk að umgangast fleiri einstaklinga en heilbrigðisyfirvöld telja skynsamlegt. „Að virða það við starfsfólk væri nærtækara en huga að arðgreiðslum á þessum tímum,“ segir forsetinn í nýjasta pistli sínum.

„Að þrýsta á um flatar lækkanir mótframlags í lífeyrissjóð eða frystingu launahækkana fyrir allan vinnumarkaðinn er með miklum ólíkindum. Sum fyrirtæki þurfa vissulega stuðning en önnur eru sannanlega aflögufær.“ Þetta segir ennfremur. 

Á fundi miðstjórnar ASÍ í dag var samþykkt „áskorun til stjórnvalda að tryggja afkomu viðkvæmra hópa sem núverandi úrræði vegna Covid-19 grípa ekki“ segir ennfremur.

mbl.is