Nauðgunardómi snúið við í Landsrétti

Það var ekki talið hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn …
Það var ekki talið hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði ætlað sér að brjóta á konunni. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá því á síðasta ári, þar sem karlmaður á fertugsaldri var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Maðurinn var ákærður fyrir fyr­ir nauðgun með því að hafa haft sam­ræði og önn­ur kyn­ferðismök við konu án henn­ar samþykk­is og vilja með því að beita hana of­beldi og ólög­mætri nauðung. 

Í dómi Landsréttar er tekið fram að engin ástæða sé til þess að efast um frásögn þolanda af upplifun sinni umrætt sinn. Það væri hins vegar ekki hægt að sanna að ákærða hefði verið það ljóst í upphafi kynmakanna eða á síðari stigum að konan væri ekki samþykk þeim. Orðaskipti þeirra hefðu verið með þeim hætti.

Fram kem­ur í dómi héraðsdóms að kon­an og maður­inn hafi farið í partí í heima­húsi eft­ir skemmt­un í miðbæ Ak­ur­eyr­ar, þar sem þau hafi verið ásamt hús­ráðanda og vin­konu kon­unn­ar. Þar hafi maðurinn verið ann­ars staðar í íbúðinni en hin þrjú og kon­an fór að at­huga með hann. Reyndist hann vera inni á baðherbergi þar sem hún sagði hann hafa brotið á sér.

Maður­inn neitaði að hafa brotið á kon­unni. Hann sagði að þau hefðu byrjað á að kyss­ast inni í eld­húsi, farið þaðan inn á baðher­bergi þar sem þau hefðu haldið áfram að kyss­ast. Þannig hefði eitt leitt af öðru.

Vin­kon­an sagðist hafa komið inn á baðher­bergið þar sem kon­an hefði verið í sjokki og farið að gráta. Hún hefði lýst því að allt hefði verið vont og hún hefði sagt mann­in­um að hún hefði ekki viljað stunda kyn­líf en hann hefði samt haldið áfram.

Í dómi Landsréttar segir að ákærði og brotaþoli hafi í meginatriðum verið staðföst og samkvæm sjálfum sér í framburði af atvikum og var hann metinn trúverðugur. Þau voru sammála um að brotaþoli hefði átti frumkvæði að því að kyssa ákærða og að þau hefðu farið heim til vinar ákærða þar sem þau hefðu með samþykki beggja farið inn á baðherbergi. Þá hefði ákærði lokað og læst dyrunum. Þeim bar einnig saman um að ákærði hefði fengið sáðlát á gólfið að ósk brotaþola. Það var hins vegar orð gegn orði um það hvort hún hefði tjáð honum í orði eða verki að hún vildi ekki eiga kynmök.

Í niðurstöðu dómsins segir það því ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft ásetning til að eiga samræði og önnur kynferðismök við brotaþola með ofbeldi. Maðurinn var því sýknaður af ákærunni.

mbl.is