Níðstöng reist gegn Alþingi

Níðstöngin við styttu Jóns Sigurðssonar.
Níðstöngin við styttu Jóns Sigurðssonar. Ljósmynd/Aðsend

Níðstöng að heiðnum sið var reist við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli og vísaði hún að Alþingishúsinu. Á henni voru sviðahausar og í skilaboðum sem henni fylgdu kom fram að Alþingi níddist á kvennastéttum og þeim sem minna mættu sín. Sömuleiðis var þar lögð bölvun á Alþingi.

„Ómissandi fólk fær lækkuð laun í verðlaun fyrir óeigingjörn og erfið störf,“ sagði þar meðal annars.

Hugsanlega er þarna verið að vísa til hjúkrunarfræðinga sem eiga í kjaraviðræðum um þessar mundir. Stutt er síðan hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum birti facebookfærslu um að launin hennar hefðu lækkað um 41 þúsund krónur um síðustu mánaðamót þar sem vaktaálagsauki hefði verið tekinn af.

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, hafði ekki heyrt af níðstönginni þegar mbl.is hafði samband við hana í morgun og vildi hún því ekki tjá sig um hana að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert