Skoða ólíkar sviðsmyndir og boða frekari lausnir

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. á leið …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. á leið í ráðherrabústaðinn á ríkisráðsfund í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eðli málsins samkvæmt eru mjög fáir sem treysta sér til að spá um þróun mála eins og staðan er. Við erum auðvitað búin að horfa á ólíkar sviðsmyndir, sérstaklega sem varða hversu lengi ferðatakmarkanir verða í gildi. Það er ljóst að það getur haft mikil áhrif bæði á stöðu efnahagsmála og stöðu atvinnulífs,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð um þær efnahags- og samfélagslegu sviðsmyndir sem stjórnvöld hafa teiknað upp. 

Katrín bendir á í þessu samhengi að 28 þúsund manns hafa óskað eftir að nýta sér hlutabætur og -störf til Vinnumálastofnunar vegna samdráttarins af völdum kórónuveirunnar. Þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir að þessi fjöldi myndi sækja um slíkar bætur sýna tölurnar hversu mikil eftirspurnin er. „Þessi samdráttur birtist í samdrætti á hagvexti, einkaneyslu og miklu atvinnuleysi. Krónan hefur aðeins gefið eftir,“ segir Katrín. 

Katrín segir að staðan sem núna er komin upp rími við þær sviðsmyndir sem hafi verið dregnar upp. „Stóri óvissuþátturinn er hversu langvarandi þetta verður og það er það sem við erum að ræða og gerum nánast daglega. Hvernig við höldum á málum miðað við ólíkar sviðsmyndir,“ segir Katrín.  

Erum í of miklum viðtengingarhætti

Spurð nánar út í sviðsmyndirnar segist Katrín ekki geta farið nákvæmlega yfir þær. „Eins og staðan er núna erum við enn í of miklum viðtengingarhætti. Ef þetta þá hvað? Ég held að við þurfum að sætta okkur við að við erum enn í mikilli óvissu. Það eina sem við vitum er að við þurfum að sýna frekari aðgerðir. Eins og við höfum sagt, bæði á sviði efnahagsmála og félagslegum lausnum,“ útskýrir Katrín. 

Núna er unnið að ýmsum úrlausnarefnum og eru meðal annars til skoðunar sumarstörf námsmanna, framboð á menntunarúrræðum, frekari stuðningur við atvinnulíf svo fátt eitt sé nefnt. Katrín segir ekki tímabært að greina nánar hvenær þær aðgerðir verði fullmótaðar og verði kynntar. 

Katrín bendir á, líkt og hefur t.d. komið fram í máli seðlabankastjóra, að það er mjög erfitt að segja nákvæmlega til um hver þróun mála verður hér á landi. Það fari mikið eftir því hvernig málin þróast úti í heimi.   

Vonast til að samningar náist sem fyrst

Katrín kveðst ánægð með að vaktaálagsauki hjúkrunarfræðinga á Landspítala hafa verið tryggður. Þetta samþykktu fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra fyrr í dag. Hún vonar að þetta hjálpi til við að deiluaðilar nái saman. 

„Auðvitað er það bagalegt hversu langan tíma allir þessir samningar hafa tekið,“ segir Katrín spurð út í kjaradeilu félags hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins en hjúkrunarfræðingar hafa verið með lausan samning í um ár. Katrín bendir á að 11 félög í Bandalagi háskólamanna hafa skrifað undir kjarasamning við ríkið í dag. Það sýni að það sé hreyfing á þessum málum.

„Ég vonast að sjálfsögðu til þess að samninganefnd ríkisins og félag hjúkrunarfræðinga nái saman á þeim fundum sem eru boðaðir á næstunni,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert