Sóttkví aflétt í Klettaskóla og Háteigsskóla

Klettaskóli.
Klettaskóli. mbl.is/​Hari

Sóttkvíum í Háteigsskóla og Klettaskóla hefur verið aflétt og þessir skólar geta því hafið starfsemi á ný samkvæmt áætlun sem er í gangi varðandi sóttvarnir og smitgát í skólum.

Í þessum skólum og tilheyrandi félagsmiðstöðvum og frístundaheimilum starfa um 500 manns. Þá eru 130 fjölskyldur barna í Klettaskóla loksins lausar úr sóttkví og geta því aftur hafist handa við skólaverkefni og frístundastarf, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar. 

Í Háteigsskóla hafa nemendur verið í mikilli heimavinnu undir stjórn kennara skólans en loksins fá þeir tækifæri til að hitta skólafélaga og njóta veru í skólanum og frístundaheimili, segir á vef Reykjavíkurborgar.

„Í velferðarþjónustunni sem hefur unnið þrekvirki á undanförnum vikum í því að halda úti órofinni þjónustu fyrir viðkvæmustu hópana í samfélaginu eru 83 starfsmenn enn í sóttkví. Í gær höfðu 108 starfsmenn lokið sóttkví. Þetta þýðir að fleiri hendur geta gengið í störfin á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði

Hins vegar er allur varinn góður því baráttunni gegn COVID-19 er langt í frá lokið. Því hefur verið brugðið á það ráð að koma á fót bakvarðahóp borgarinnar sem gæti gengið í störf þeirra sem veikjast eða þurfa að vera frá vegna skipaðrar sóttkvíar.

Leitað hefur verið til starfsfólks Reykjavíkurborgar um að ganga til liðs við bakvarðahópinn til að hlaupa tímabundið í skarðið í velferðarþjónustunni ef nauðsyn krefur. Bakvarðahópurinn verður skipaður starfsfólki borgarinnar sem hefur tök á og væri tilbúið að leggja til hliðar þau verkefni sem það sinnir í sínum daglegu störfum til að hægt verði að sinna þjónustu við viðkvæmustu hópana ef til kemur,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert