Starfsmenn Neyðarlínunnar safna áheitum fyrir Von

Fólkið í framlínu finnur leiðir til að halda áfram að …
Fólkið í framlínu finnur leiðir til að halda áfram að efla samfélagið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum núna komin á Blönduós og stefnum að því að fara allan hringinn,“ segir Inda Hrönn Björnsdóttir, starfsmaður Neyðarlínunnar. Allir starfsmenn Neyðarlínunnar, auk starfsmanna Fjarskiptamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra og Vaktstöðvar siglinga Landhelgisgæslunnar, stefna að því að ganga, hlaupa og hjóla hringinn í kringum landið.

Þeir munu þó ekki færast úr stað heldur sinna þessari hreyfingu að mestu í vinnunni. Það þarf því ekki að óttast að landsmenn sjái undir iljarnar á þessari öflugu framlínu okkar heldur þvert á móti heldur hún áfram að létta róðurinn þegar mest á reynir. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur hlaupabretti verið komið fyrir á einni starfsstöðinni. Tvö slík eru tiltæk í húsnæðinu auk þrekhjóls.  

Starfsmenn Neyðalínunnar ætla að ganga hringinn í kringum landið og …
Starfsmenn Neyðalínunnar ætla að ganga hringinn í kringum landið og safna fyrir Von styrktarfélag gjörgæslunnar í leiðinni. Ljósmynd/Aðsend

Starfsmennirnir safna áheitum og allur ágóðinn rennur óskiptur til Vonar sem er styrktarfélag gjörgæslunnar í Fossvogi. „Við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt til að efla hópinn og létta undir þar sem mikið álag er, en það á gjörgæslunni,“ segir Inda. 

Hún segir ekki marga vita af þessu styrktarfélagi, Von. Sjálf hafi hún fyrst kynnst því þegar maðurinn hennar slasaðist alvarlega fyrir tveimur árum þegar ekið var á hann. Hann lá á gjörgæslu í þó nokkurn tíma og þurfti meðal annars að nota öndunarvél.

Þungt ástand

„Þetta er gríðarlega þungt ástand og mikil einangrun,“ segir Inda og lýsir vinnuaðstæðum og  þess vegna sé núna mikilvægt að efla starfsandann. Miklar breytingar hafa verið gerðar á öllu starfsfyrirkomulagi þessara viðbragðsaðila. Allir ganga nú fastar vaktir og eru annaðhvort t.d. á kvöld-, dag- eða næturvöktum. Hópunum hefur verið skipt niður og enginn samgangur er milli þeirra. „Það er langt síðan við hættum að hitta annað fólk og passa okkur vel,“ segir hún. 

Inda segir ýmislegt sem styrktarfélagið geti létt undir með þessari mikilvægu starfsemi á gjörgæslunni og því kallar hún eftir frekari áheitum. Hún lofar að allir starfsmenn reyni að leggja sitt af mörkum en viðurkennir þó að vaktirnar séu miskrefjandi og stundum gefist varla neinn tími til að safna kílómetrum.   

Hægt er að leggja inn á eftirfarandi reikning: 

0586-14-000609 á Kt: 130589-3409

 

 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert