Svandís framlengir bannið til 4. maí

Svandís Svavarsdóttir fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag.
Svandís Svavarsdóttir fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu, að þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum veldur áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hefur fjölgað hratt.

 „Nú skiptir öllu máli að við höldum áfram að standa saman sem einn maður, fylgja fyrirmælum okkar besta fagfólks og koma þannig í veg fyrir að álag á heilbrigðiskerfið fari yfir þolmörkin,“ segir heilbrigðisráðherra í tilkynningunni. 

„Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra hafa margvíslegar aðgerðir, m.a. framangreindar takmarkanir skilað því að tekist hefur að hefta útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu. Til þessa hefur fjölgun smita ekki verið meiri en svo að hún helst í hendur við bjartsýnustu spár hvað það varðar samkvæmt spálíkani sérfræðinga þar að lútandi sem sjá má á vefnum Covid.hi.is. Aftur á móti hefur alvarlega veikum einstaklingum fjölgað jafnt og þétt, sem lýsir sér m.a. með miklu álagi á gjörgæsludeild Landspítalans. Ljóst er að frekari aukning á smiti í samfélaginu með fjölgun alvarlega veikra, getur skapað mikinn vanda innan heilbrigðiskerfisins og torveldað því að gegna hlutverki sínu eins og þörf krefur,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Takmörkunum verði aflétt í áföngum

Fram kemur, að engar breytingar verði á gildandi takmörkunum á samkomum og skólahaldi aðrar en framlengdur gildistími til 4. maí. Á tímabilinu verði undirbúin áætlun um hvernig best megi standa að því að aflétta gildandi takmörkunum í áföngum. Stefnt sé að því að kynna þau áform fyrir lok þessa mánaðar.

Veittar undanþágur halda gildi

Þá segir, að undanþágur sem veittar hafi verið frá takmörkunum á samkomum og skólahaldi muni halda gildi sínu sem nemur framlengingu aðgerða, þ.e. til 4. maí næstkomandi. Áréttað er að undanþágur séu því aðeins veittar að mikið sé í húfi, þ.e. í þágu allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu.

mbl.is