Þrjár leiðir til að „klára“ faraldurinn

Sýnataka vegna skimunar fyrir kórónunveiru.
Sýnataka vegna skimunar fyrir kórónunveiru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjár leiðir eru mögulegar til að „klára“ faraldurinn sem gengur yfir vegna kórónuveirunnar. Að allar þjóðir bæli niður veiruna á sama tíma eins og gerðist í SARS-faraldrinum, leyfa veirunni að ganga í gegn óáreittri og mynda þar með hjarðónæmi á sem stystum tíma eða reyna að hemja útbreiðslu hennar þannig að tiltölulega fáir séu sýktir í einu.

Þetta segir Jón Ívar Einarsson, kvensjúkdómalæknir og prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Hann segir þriðju og síðustu leiðina sennilega vera besta en að henni fylgi ókostir. Til dæmis getur tíðni smita blossað upp aftur eins og gerðist í spænsku veikinni árið 1918 sem gekk yfir í þremur bylgjum.

Jón Ívar Einarsson.
Jón Ívar Einarsson.

Gríðarlegar afleiðingar

Hann nefnir að sóttvarnalæknir og hans teymi fylgi síðastnefndu leiðinni og að hún hafi verið árangursrík en hafi aftur á móti gríðarlegar afleiðingar fyrir samfélagið og efnahag þjóðarinnar. Ef COVID-19 verður á kreiki hérlendis í marga mánuði til viðbótar mætti skoða hnitmiðaðar þjóðfélagslegar takmarkanir sem taka tillit til áhættuþátta, að sögn Jóns Ívars. Hann bendir á að þeir sem veikjast mest, leggjast inn á gjörgæslu eða deyja séu að langmestu leyti eldri einstaklingar eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Því sé mikilvægast að vernda þá sem eru eldri en 60 ára eða með undirliggjandi sjúkdóma. Gera mætti enn betur í þeim efnum hér á landi „til dæmis með því að nota ávallt maska í návist þessara einstaklinga og gæta ýtrustu sóttvarna". 

„Við erum þegar með aldurstengdar aðgerðir að hluta til hjá yngri hópum þar sem grunnskólar eru opnir, en e.t.v. mætti á réttum tímapunkti minnka takmarkanir hjá ungu og hraustu fólki fyrst, til að halda samfélaginu enn frekar gangandi,“ skrifar hann.

Með þessu væri hægt að vernda áhættuhópa, lágmarka samfélagslegan skaða og tryggja að heilbrigðiskerfið haldi velli.

mbl.is

Bloggað um fréttina