Tilslakanir skili sér til viðskiptavina

Stjórnin vill að tilslakanir í garð banka og fjármálastofnana skili …
Stjórnin vill að tilslakanir í garð banka og fjármálastofnana skili sér að fullu til viðskiptavina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar í þágu fyrirtækja gangi að fullu áfram til neytenda og vill sérstaklega að tilslakanir í garð banka og fjármálastofnana skili sér að fullu til viðskiptavina þeirra í formi þóknana- og vaxtalækkana.

Eins vill hún, í ályktun sinni, að leigjendur fái að njóta tilslakana sem leigusalar kunna að fá.

Stjórnin varar einnig við „gamalkunnum óvildargestum, gengissigi og verðbólgu sem glittir í við sjónarrönd“. Hvetur hún stjórnvöld til að stugga við þeim og bætir við að skoða þurfi hvort setja eigi þak á verðtryggingu.

Dregið hefur verið úr þjónustu Strætó.
Dregið hefur verið úr þjónustu Strætó. Ljósmynd/Strætó

Strætó fjölgi ferðum aftur

Í annarri ályktun stjórnarinnar hvetur hún Strætó BS til að endurskoða ákvörðun sína um að fækka ferðum almenningsvagna og segir að skert þjónusta komi hart niður á notendum, meðal annars þeirra sem vinna samfélagslega mikilvæg störf og nýta sér almenningssamgöngur í og úr vinnu. „Mætti leiða að því rökum að með fækkun ferða ferðist fleiri með hverjum vagni með aukinni smithættu, þvert á rök Strætó um aðgerðir vegna Covid-19,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert