Aðeins 0,6% í slembiúrtaki smituð

Þrettán einstaklingar af 2.300 manna slembiúrtaki sem Íslensk erfðagrein­ing tók sýni úr á höfuðborgarsvæðinu vegna kór­ónu­veirunn­ar reynd­ust smitaðir. Það þýðir að tíðni sýkinga í slembiúrtakinu er 0,6%. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að þetta sé nokkurn veginn það sama og hefur verið frá 13. mars nema hlutfallið sé aðeins að lækka. „Veldisfjölgun á sýkingum hefur ekki átt sér stað heldur línuleg fjölgun sem er jafnvel aðeins að minnka. Þetta þýðir því ósköp einfaldlega að aðgerðir þríeykisins eru að virka og ég er mjög feginn því og þetta eru miklar gleðifréttir,“ segir Kári. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/​Hari

Hann segir að allt samfélagið hafi staðið sig vel þegar kemur að kórónuveirunni og viðbrögðum við henni. „Við eigum að vera montin af því að vera Íslendingar í dag,“ segir Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina