Borgin undirbúin fyrir þyngstu vikur faraldursins

Til að bregðast við þeim aðstæðum sem komið getur upp …
Til að bregðast við þeim aðstæðum sem komið getur upp hefur neyðarstjórn borgarinnar stofnað bakvarðarhóp starfsfólks. mbl.is/Ómar Óskarsson

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hefur undanfarna vikur verið að búa borgina undir þyngstu vikur Covid-faraldursins. Þær sem fram undan eru. Eitt af því sem unnið hefur verið er nokkurs konar álagspróf á starfsemina þar sem metið er hvaða áhrif það hefði að fjórðungur eða helmingur starfsfólks í tiltekinni þjónustu kæmist ekki til vinnu. Ekki er um að ræða spá heldur varúðarráðstafanir, en stór hluti þjónustu borgarinnar er þess eðlis að hana þarf að tryggja órofna, sama hvað gengur á. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í færslu sem hann ritar á Facebook.

Greiningin og viðbrögð við henni var unnin undir forystu Lóu Birnu Birgisdóttur, sviðsstjóra mannauðssviðs borgarinnar, í samvinnu við mannauðsstjóra sviðanna.

Til að bregðast við þeim aðstæðum sem komið geta upp hefur neyðarstjórn borgarinnar stofnað bakvarðarhóp starfsfólks. Það er skrá eða listi yfir starfsfólk sem er tilbúið að takast á við störf á öðru sviði en það starfar venjulega á. Skráningar hófust í vikunni og hafa viðtökurnar verið góðar.

Dagur segir bakvarðarhópinn síðan geta nýst til að hlaupa undir bagga með almannavörnum höfuðborgarsvæðisins eða öðrum sveitarfélögum ef í harðbakkann slær.

Þá er hægt að skoða hér nýja samantekt og greiningu um stöðu mannauðs og áhrif kórónuveirunnar á rekstur borgarinnar. Hún er uppfærð reglulega. Tilgangur samantektarinnar er að veita yfirsýn á hverjum tíma um áhrif veirunnar á starfsemi borgarinnar.mbl.is