Ekkert ferðaveður

Mynd úr safni, en hringvegurinn er lokaður á nokkrum stöðum.
Mynd úr safni, en hringvegurinn er lokaður á nokkrum stöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir hafa þurft að aðstoða ökumenn vegna ófærðar í dag og eins hafa þær flutt sýni í rannsókn. Ekkert ferðaveður er á Suðurlandi og stórhríð á köflum um landið norðanvert. Fjallvegum þar verður lokað fyrir nóttina. Appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út um allt land nema á höfuðborgarsvæðinu þar verður gult ástand.

Versnandi veður í kvöld og nótt, allvíða stormur eða rok í fyrramálið og fram eftir morgundegi með talsverðri snjókomu, en slíkt veður kallast einnig stórhríð.
Síðdegis á morgun lagast veður mjög á sunnan- og austanverðu landinu, en norðan- og vestanlands batnar annað kvöld og aðfaranótt mánudags.

Mjög hvasst er um sunnanvert landið og slæmt ferðaveður. Búið er að loka Hellisheiði og Þrengslum vegna veðurs. Á Vestfjörðum er Klettsháls ófær sem og Gemlufallsheiði sem verður væntanlega ekki opnuð fyrr en á mánudag miðað við veðurspá.

Á Norðurlandi er víða stórhríð og vegir ófærir eða lokaðir. Siglufjarðarvegur er ófær og Öxnadalsheiði er lokuð vegna veðurs. Vonskuveður er á Norðausturlandi og margar helstu leiðir ófærar eða lokaðar. Lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi vegna veðurs. Fjarðarheiði er lokuð vegna veðurs.

Vegurinn undir Eyjafjöllum, milli Seljalandsfoss og Víkur er lokaður vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert