Flauta og fá pylsuna beint í bílinn

Margt er gjarnan um manninn við Bæjarins bestu um hádegisbilið …
Margt er gjarnan um manninn við Bæjarins bestu um hádegisbilið en þar var varla sálu að sjá þegar blaðamaður leit þar við, einmitt um hádegisbilið í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

„Það er rosalegur samdráttur á öllum stöðum hjá okkur því það eru allir heima,“ segir Guðrún Björk Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu, en fyrirtækið hefur þurft að loka þremur stöðum tímabundið vegna samkomubannsins sem er í gildi til 4. maí næstkomandi.

Bæjarins beztu hafa þó ekki dáið ráðalausar heldur hefur fyrirtækið bryddað upp á nokkrum nýjungum í kjölfar samkomubannsins. Þar má nefna sölu á prins póló sem og afgreiðslu út í bíl. Sérstakt samkomubannstilboð er á tveimur pylsum, prins póló og gosi, en tilboðið kostar nú þúsund krónur.

Eva Rún Ágústsdóttir Kroknes stóð vaktina í dag en ef …
Eva Rún Ágústsdóttir Kroknes stóð vaktina í dag en ef rýnt er í myndina má sjá að á útprentuðum upplýsingaskiltum sem límd hafa verið utan á Bæjarins beztu eru viðskiptavinir beðnir vinsamlega um að virða tveggja metra regluna og afhenda greiðslu þegar starfsmaður dregur sig í hlé.

Nýttu samkomubann í nýjung

„Við ákváðum bara að reyna að leggja okkar af mörkum og bjóða upp á prins póló með pylsunni. Það hafði verið í farvatninu hjá okkur að byrja að selja prins póló líka svo við ákváðum að nota tækifærið þegar þetta kom allt saman upp að gera það svolítið veglega,“ segir Guðrún. 

Hin nýjungin er fáheyrð hérlendis; pylsa beint í bílinn þótt engin bílalúga komi þar að. Viðskiptavinir geta einfaldlega blikkað bílljósunum eða flautað þegar þeir eru fyrir utan sölustað Bæjarins beztu og þá kemur starfsmaður sem tekur pöntun og færir viðskiptavininum loks ilmandi pylsur beint í bílinn. 

Sérstarfsmaður sinnir þessu verkefni en að sögn Guðrúnar hafa engar fyrirspurnir borist um heimsendingu á pylsum.

Umferðin við Bæjarins beztu í dag segir líklega ýmislegt um …
Umferðin við Bæjarins beztu í dag segir líklega ýmislegt um það hversu fáir sækja miðborgina heim þessa dagana. Ljósmynd/Sigurður Unnar

Reyna að finna sem mesta vinnu 

Einungis tveir af fimm stöðum Bæjarins beztu eru nú opnir.

„Staðurinn á Tryggvagötu og sá hjá Byko í Breiddinni. Hinum stöðunum höfum við lokað tímabundið. Við erum eins og aðrir; við erum að fást við það að reyna að gera þetta eins vel og hægt er,“ segir Guðrún. 

Afgreiðslutíminn á Tryggvagötu hefur einnig verið styttur örlítið, en nú er opið þar frá 10.00 til 22.00. Guðrún segir útlit fyrir að eitthvað verði opið hjá Bæjarins beztu í Skeifunni yfir páskana.

„Við erum að reyna að finna sem mesta vinnu fyrir starfsfólkið okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert