Fólk er eðlilega óttaslegið

„Ef við stöndum saman getum við allt. Það eru tveir …
„Ef við stöndum saman getum við allt. Það eru tveir óvinir í þessu verkefni; veiran sjálf og óttinn. Við látum ekki veiruna stjórna heldur stýrum henni og slökum aldrei á. Við tökumst á við óttann með því að segja öllum allt. Það verður að vera þannig,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. mbl.is/Ásdís

Víðir er sestur góða tvo metra frá blaðamanni í litlu gámahúsi fyrir utan Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. Þar fara blaðamannafundir fram daglega klukkan tvö og er óhætt að segja að þjóðin sitji límd yfir þeim til að fylgjast með framgangi mála. Víðir, Alma Möller og Þórólfur Guðnason hafa staðið vaktina og bæði upplýst og sefað þjóðina á þessum óvissutímum. Víðir hefur fengið þjóðina til að virða lög og reglur. Fólk hefur tekið það til sín og segir gjarnan: Ég hlýði Víði!

Og það er gott að hlýða Víði; hann virkar yfirvegaður og virðist vera með allt á hreinu. Þjóðin hreinlega fær ekki nóg af honum og því ákvað Sunnudagsblaðið að skyggnast á bak við tjöldin og kynnast manninum Víði Reynissyni.  

Heim til Eyja

  „Ég fæddist í Eyjum í apríl 1967 og bjó þar á tólfta ár. Það var dásamlegt að alast upp á stað þar sem frjálsræðið er mikið. Ég var rosalega mikið í fótbolta þótt ég væri aldrei neitt svakalega góður. Við vorum með okkar eigið Wembley; grasvöll þar sem við bjuggum til heimatilbúin mörk úr steinum eða úlpum,“ segir hann.  

Víðir var sex ára þegar fór að gjósa í Heimaey árið 1973.

„Fyrsta minningin er af mér þar sem ég stend fyrir utan húsið, sem stóð rétt efst í bænum. Ég man að ég stóð og horfði á gosið en ég held ég hafi ekki skilið þetta almennilega. Ég á líka sterka minningu frá kvöldinu áður. Í forstofunni var innri hurð með gleri sem enn var ekki búið að festa almennilega. Ég man að þetta kvöld titraði glerið og ég lék mér að því að setja fingur á það þannig að það hætti. Svo sleppti ég og þá fór aftur að titra; það glamraði í glerinu. Pabbi hélt að olíukyndingin í húsinu væri að bila. Þetta var nokkrum tímum áður en fór að gjósa,“ segir hann.

„Ég fór til Eyja þarna um sumarið, strax eftir goslok, og var þar í nokkra daga hjá pabba, en við fluttum ekki aftur til Eyja fyrr en sumarið 1974. Þá var búið að hreinsa allt það helsta en það var ennþá verið að moka upp húsin sem voru austast í bænum. Þetta var mikill ævintýraheimur fyrir lítinn strák. Við vinirnir vorum að þvælast þarna um allt og skriðum inn í húsin og lékum okkur í nýja hrauninu, sem var mjög torfært svo ekki sé meira sagt. Það var enn hiti í gjótunum og maður þurfti ekki að sparka burt mörgum steinum til að komast niður á glóð. Það var ýmislegt brallað þarna,“ segir Víðir með blik í auga.  

„Ég tala alltaf um að fara heim til Eyja.“

Þjóðin undirbúin

Sem deildarstjóri almannavarnadeildar, á árunum 2006 til 2015, sá Víðir um undirbúning almannavarnakerfisins.

„Við vorum að reyna að fá fólk til að undirbúa sig fyrir ýmiss konar ástand; eins og til dæmis það sem við erum stödd í núna. Það gat verið snúið því menn voru mismóttækilegir á tímum þegar ekkert var að gerast. Við vorum með fyrstu æfinguna sem sneri að heimsfaraldri árið 2005, fyrir fimmtán árum. Á hverju ári síðan höfum við verið að undirbúa okkur fyrir að takast á við svona atburði eins og við stöndum frammi fyrir í dag,“ segir Víðir og segir að þau hafi gert sér grein fyrir að heimsfaraldrar væru reglulegir viðburðir.

„Við vissum auðvitað ekki hvaða tegund gæti komið upp, en vinnan 2006 til 2009 snerist um inflúensu. En við höfum haldið þeirri vinnu áfram alveg síðan og margir lagt hönd á plóginn.“ 

Hvernig býr maður þjóð undir veirufaraldur? 

„Fyrsta skrefið er að greina hverja faraldurinn hefur áhrif á. Í þessu samhengi er augljóst að enginn sleppur. Þá reynir maður að greina lykilstofnanir; hvaða starfsemi má ekki stöðvast. Allt frá 2006 voru stofnaðir margir vinnuhópar sem reyndu að greina einstaka þætti og við fórum í það að biðja fyrirtæki og stofnanir að gera áætlanir um það hvernig hægt væri að láta helming starfsmanna vera í burtu á hverjum tíma. Það var viðmiðið; að geta keyrt starfsemina með 50% starfsmannanna. Þegar á reynir reynist það mörgum erfiðara í framkvæmd en á pappír,“ segir hann.

Víðir segir að við slíkan undirbúning sé ávallt óvissa um marga þætti, svo sem viðbrögð einstaklinga.

„Fólk er eðlilega óttaslegið. Við heyrum sögur og sjáum hryllingsmyndir af þessum faraldri víða um heim. Enn erum við ekki komin á versta stað sem við höfum séð aðra lenda á og vonandi tekst okkur að sleppa við það. En það er meðal annars vegna þess að við höfum fengið svona fólk sem hefur staðið upp og verið tilbúið til að leggja sitt af mörkum. Það eru ótrúlega margir sem fá ekki það hrós sem þeir eiga skilið.“ 

Sóttvarnamálin fyrst

Víðir hætti hjá Ríkislögreglustjóra árið 2015 og gerðist lögreglufulltrúi á Suðurlandi og síðar öryggisfulltrúi hjá KSÍ.

„Það var ekki fyrr en núna um áramótin að dómsmálaráðherra bað mig að koma að því verkefni að greina starfsemi ríkislögreglustjóra. Það verkefni átti bara að taka tvo mánuði og ég átti að skila því fimmtánda mars. Ég ætlaði aftur til KSÍ fyrsta mars en í lok febrúar var ég beðinn að taka að mér nýtt verkefni; það þurfti yfirlögregluþjón til að halda utan um málefni Covid-19. Ég fékk leyfi hjá KSÍ og talaði fyrst um nokkurra vikna frí en strax á öðrum degi áttuðum við okkur á því að þetta yrði risaverkefni sem svo stækkaði hratt. Dagarnir urðu langir og fljótlega myndaðist þetta teymi; ég, Þórólfur og Alma. Þetta teymi var ekki planað heldur einhvern veginn varð bara til. Við þrjú sáum að ef öll samhæfing ætti að ganga yrðum við að standa þétt saman. Við hittumst oft á dag og þegar við vorum komin á neyðarstig fluttu allir sína starfsemi hingað í Skógarhlíð,“ segir Víðir.

„Þetta var leiðin til að keyra þetta verkefni. Við sáum hvað var að gerast í löndunum í kringum okkur þegar stjórnmálamenn stigu fram og kynntu stórar ákvarðanir. Við ræddum auðvitað við okkar ráðherra og fulltrúa ríkisstjórnarinnar en fengum strax þau svör frá þeim að Ísland vildi keyra þetta áfram byggt á vísindalegum ákvörðunum. Það voru skýr skilaboð. Sóttvarnamálin væru númer eitt og efnahagsmálin númer tvö. Það er engin pólitík í þessu. Við höfum aldrei upplifað neina pressu til þess að mæta einhverjum öðrum kröfum en að láta baráttuna við veiruna ganga fyrir. Það bakka okkur allir upp,“ segir Víðir og segir þau þrjú eiga vel saman.

„Við erum samt mjög ólík og erum ekki alltaf sammála, en erum á uppbyggilegan hátt gagnrýnin hvert við annað. Okkur tekst alltaf að ræða okkur niður á niðurstöðuna, og ég held að fyrir vikið verði hún betri.“

Þjóðin hlýðir Víði

Það má segja að Víðir hafi fengið stærsta verkefni lífs síns um leið og hann tók við starfi yfirlögregluþjóns nú fyrir skömmu.

„Allt sem ég hef gert alla ævi, frá því ég var barn að horfa á eldgosið, mótar mann. Sumt er góð reynsla og gerir mann að því sem maður er í dag. En já, þetta er risaverkefni. Mér er treyst fyrir því en ég er með margt gott fólk í mínu teymi.“

Nú vissu fáir hver þú varst fyrir nokkrum vikum. Hvernig er að vera orðinn nokkurs konar þjóðareign?

„Ég hugsa oft að fólk hljóti að fara að verða leitt á mér. Það er ekki eins og ég sé skemmtilegasti maður á landinu! En þetta er verkefni og við ætlum að leysa það.“

Víðir og eiginkona hans, Sigrún María, eiga tvö börn, Söru …
Víðir og eiginkona hans, Sigrún María, eiga tvö börn, Söru Kristínu og Kristján Orra. Ljósmynd/Aðsend

Nú gengur um landið slagorðið: Ég hlýði Víði. Finnst þér þjóðin vera að hlýða?

„Já, já. Mér finnst þetta fyrst og fremst fyndið orðatiltæki en ég og Birgir Ómarsson sem samdi þetta höfum þekkst lengi og ég held að þetta hafi í upphafi átt að vera smá stríðni. En þetta er orðið slagorð verkefnisins, sem er bara fínt,“ segir Víðir og segir auðvelt fyrir fólk „að hlýða“ þar sem hann sé með trúverðugan málstað, sé heiðarlegur og sannur og með góð rök.

„Nú þegar þetta er komið svona nálægt okkur tekur fólk þetta alvarlega. Þetta er ekki venjuleg flensa; þetta er miklu meira smitandi og miklu meira ólíkindatól en venjuleg flensa. Sumir veikjast ekki neitt og aðrir verða fárveikir og erfitt er að sjá reglu í þessu. Hér eru fjórir látnir og ólíklegt að þeir verði ekki fleiri,“ segir hann.

„Ef við stöndum saman getum við allt. Það eru tveir óvinir í þessu verkefni; veiran sjálf og óttinn. Við látum ekki veiruna stjórna heldur stýrum henni og slökum aldrei á. Við tökumst á við óttann með því að segja öllum allt. Það verður að vera þannig.“

Ítarlegt viðtal er við Víði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og má lesa það hér á mbl.is:




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert