Gular viðvaranir og hríðarveður

Mynd/Veðurstofa Islands

Gular viðvaranir eru í gildi fyrir stóran hluta landsins allt fram til miðnættis annað kvöld. Er það helst Norðurland og Norðausturland sem sleppur að þessu sinni.

Í dag er búist við vaxandi norðaustanátt, 15-25 m/s eftir hádegi, hvassast undir Eyjafjöllum og í Öræfum, en gular vindviðvaranir eru í gildi fyrir sunnan- og vestanvert landið. Það verða víða él en úrkomulítið á suðvestanverðu landinu, og frostið verður yfirleitt 0 til 10 stig að deginum, kaldast í innsveitum norðanlands. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá bætir í vind og ofankomu í kvöld og nótt, víða norðaustan stormur eða rok og hríðarveður á morgun, og eru líkur á að færð geti spillst í flestum landshlutum. Það hlýnar með deginum, og síðdegis verður úrkoman orðin að rigningu um landið sunnan- og austanvert. Seint á morgun og aðfaranótt mánudags dregur svo úr vindi á öllu landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag (pálmasunnudagur):
Norðaustan stormur eða rok með snjókomu og skafrenningi. Frost um allt land en hlýnar með deginum, rigning sunnan- og austanlands síðdegis og dregur úr vindi þar um kvöldið.

Á mánudag:
Snýst í allhvassa eða hvassa suðvestanátt með skúrum og síðar éljum, en styttir upp norðaustanlands. Hiti 1 til 8 stig um morguninn, en kólnar með deginum.

Á þriðjudag:
Minnkandi suðlæg átt, en snýst í norðanátt með dálitlum éljum norðanlands síðdegis. Hiti um og undir frostmarki

Á miðvikudag:
Fremur hæg breytileg átt og bjart með köflum, en él austanlands. Vægt frost en frostlaust með suðurströndinni.

Á fimmtudag (skírdagur) og föstudag (föstudagurinn langi):
Hæg vestlæg átt og víða bjartviðri, en stöku él við ströndina. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert