Hundrað manna bílabíó á Eskifirði

Áhorfendur fylgjast með þegar Karl Ágúst Úlfsson, einn aðalleikara í …
Áhorfendur fylgjast með þegar Karl Ágúst Úlfsson, einn aðalleikara í Nýju lífi, fær sér góðan slurk af sérríi meðan hann lagar sósuna. Ljósmynd/Menningarstofa Fjarðabyggðar

„Það gekk mjög vel. Um hundrað manns mættu,“ segir Ari Allansson, forstöðumaður menningarstofu Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is um bílabíó sem haldið var á Eskifirði í gærkvöld. Sýnd var hin sígilda grínmynd Nýtt líf eftir Þráin Bertelsson en vegna slæmrar veðurspár hefur sýningu á Hvítum hvítum degi, sem átti að sýna í kvöld, verið frestað fram á mánudag klukkan 21.00.

Spurður um tildrög bílabíósins segir Ari: „Við höfum verið með kvikmyndasýningar hér í Fjarðabyggð undanfarna mánuði. Kvikmyndasýningarfélag Austurlands hefur í samstarfi við menningarstofuna verið svolítið að rífa upp kvikmyndamenninguna hérna.“ Þegar samkomubann hafi svo verið sett á hafi verið ákveðið að setja upp bílabíó, enda ekki hægt að halda áfram sýningunum með hefðbundnum hætti. „Ég hugsa að við hefðum sýnt þessar myndir hvort sem er,“ bætir hann við.

Ein gömul og ein ný

Spurður um erfiðleikana sem fylgi því að skipuleggja menningarstarf á þessum undarlegu tímum segir Ari að eins og annars staðar hafi öllu hefðbundnu menningarstarfi, svo sem tónleikum, verið aflýst. Því hafi ýmsar hugmyndir skotið upp kollinum, sem dæmi að standa fyrir útikór sem gæti jafnvel ferðast milli fjarða. Þá sé planið að halda áfram bílabíósýningum. „Næstu helgi, páskahelgina, er planið að vera á Reyðarfirði, og þá myndum við vonandi sýna Bergmál,“ segir Ari og segir að áður en samkomubann var sett á hafi verið áætlað að sýna þá mynd. Þá sé möguleiki að halda áfram skipulaginu sem haft var á hlutunum á Eskifirði nú, þ.e. að sýna eina klassíska mynd og svo eina nýrri. 

Allir fylgdu reglum og sátu prúðir inni í bílunum og …
Allir fylgdu reglum og sátu prúðir inni í bílunum og fylgdust með myndinni. Ljósmynd/Menningarstofa Fjarðabyggðar

Ari segir að sér hafi fundist sérstaklega ánægjulegt hversu mikilli jákvæðni og samstöðu hann fann fyrir í kringum bílabíóið. Sem dæmi hafi hann haft samband við Þráin Bertelsson, leikstjóra Nýs lífs, og Senu, dreifingaraðila, og Anton Mána Svansson, framleiðanda Hvíts hvíts dags, vegna sýninganna, og alls staðar hafi leyfi fyrir því verið auðsótt. 

Ari segir að bílabíó sé góð leið til að halda menningarstarfi á lífi í samkomubanninu, og minnist á þá staði sem þegar hafa ráðist í slíkar sýningar, og telur að margir hafi fengið þessa sömu hugmynd um landið. „Þetta á ábyggilega eftir að dúkka upp á fleiri stöðum.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert