Komust í þýskt neyðarflug með herkjum

Björgvin (t.v.) og Greipur (t.h.) á flugvellinum í Buenos Aires.
Björgvin (t.v.) og Greipur (t.h.) á flugvellinum í Buenos Aires. Ljósmynd/Aðsend

Eftir þriggja sólarhringa ferðalag, viðkomu í fjórum löndum, þýskt neyðarflug, níu tíma ferðalag með lítt traustvekjandi leigubíl með brotinn glugga og heilt yfir sannkallaðan tilfinningarússíbana sem fól í sér óvissu um að þeir kæmust heim til Íslands eru AFS-skiptinemarnir Björgvin Logi Bjarkason og Greipur Þorbjörn Gíslason komnir heim og eyða nú átján ára afmælisdögum sínum í sameiginlegri sóttkví. 

Strákarnir voru í skiptinámi á vegum AFS í Argentínu, Björgvin nærri borginni Rosario og Greipur nærri borginni Cordoba. Þeir höfðu einungis verið úti í nokkrar vikur þegar fréttir bárust af því að þeir þyrftu að fara aftur heim til Íslands vegna kórónuveirunnar. 

„Það var náttúrlega búinn að vera draumur í mörg ár að fara í skiptinám og svo var það skotið svona niður með einum tölvupósti,“ segir Greipur sem náði bara fjórum dögum í skólanum í Argentínu áður en útgöngubanni var komið á.

„Á einu augnabliki breyttist allt,“ segir Björgvin, sem fagnar átján ára afmælinu sínu í dag. „En þetta gerðist auðvitað um allan heim svo við erum ekki einir.“

Greipur þurfti að ferðast með leigubíl í níu klukkustundir til …
Greipur þurfti að ferðast með leigubíl í níu klukkustundir til þess að komast á flugvöllinn þar sem miklar ferðatakmarkanir eru í gildi í Argentínu. Brotin rúða var í bílnum og var hann stöðvaður fjórum sinnum af yfirvöldum á leiðinni á flugvöllinn. Ljósmynd/Aðsend

Hóteli strákanna breytt í spítala

Strákarnir höfðu varið tveimur mánuðum í undirbúning fyrir skiptinámið og voru báðir mjög spenntir fyrir því enda spennandi tímar fram undan. Þeir höfðu verið í tvær vikur í útgöngubanni áður en þeir loks komust til Íslands en daginn fyrir flugið höfðu þeir verið á hóteli sem þeir þurftu að drífa sig út af vegna þess að breyta átti því í spítala. 

Í flestum ríkjum Suður-Ameríku er eina leiðin út úr löndunum eins konar neyðarflug eða heimsendingarflug (e. repatriation). Það var því erfitt fyrir strákana að fá flug út úr landinu og í raun tvísýnt á köflum hvort þeir kæmust með slíku flugi yfirhöfuð.

Þegar fréttir bárust af þýsku neyðarflugi voru þeir snöggir að gera það sem í þeirra valdi stóð til að koma sér í það. Það hófst en með herkjum þó. Sífellt fengu þeir skilaboð um að þeir myndu ekki fá sæti í fluginu en þar sem þeir voru ekki orðnir átján ára fengu þeir forgang í flugið sem var þó helst ætlað þýskum ríkisborgurum. Eins og fyrr segir varð Bjarki átján ára í dag og Greipur verður átján ára á morgun. 

Strákarnir segja að það hafi verið einkennilegt að koma á …
Strákarnir segja að það hafi verið einkennilegt að koma á Heathrow flugvöll þegar svo fáir voru á ferli. Ljósmynd/Aðsend

Heathrow galtómur

Strákarnir flugu svo í fjórtán tíma frá Buenos Aires til Frankfurt. Þaðan flugu þeir til London og loks heim til Íslands. Greipur segir að það hafi verið mjög einkennilegt að koma á Heathrow-flugvöll sem var gjörsamlega tómur.

„Í flugvélinni til London voru 30 manns og til Reykjavíkur voru 15 manns. Við vorum með heilar sætaraðir fyrir okkur,“ segir Björgvin.

Eftir erfitt ferðalag og langan aðskilnað langar flesta líklega að faðma fjölskyldur sínar en það var ekki í boði í tilfelli strákanna. Öllum Íslendingum sem koma heim hefur verið gert að sæta 14 daga sóttkví og strákarnir eru nú í sóttkví.

„Við fengum ekki einu sinni að knúsa fjölskyldurnar okkar. Pabbi kom til mín og kastaði í mig bíllyklum svo við gætum farið einir heim,“ segir Greipur.

„Það eru óhefðbundnir afmælisdagar fram undan, átján ára afmælin verða líklega bara við tveir að hlusta á tónlist eða eitthvað,“ segir Björgvin. 

Sömu sögu var að segja af flugvélinni heim og Heathrow. …
Sömu sögu var að segja af flugvélinni heim og Heathrow. Þar var nánast enginn. Ljósmynd/Aðsend

Vonast til að fara seinna í skiptinám

Strákarnir voru greinilega mjög vonsviknir að missa af skiptináminu og því vel við hæfi að spyrja hvort þeir ætli að reyna að láta drauminn rætast aftur þegar færi gefst. 

„Við fáum mögulega að fara aftur út í ágúst. Í rauninni með næsta prógrammi,“ segir Greipur.

Reynslan af hinu stutta skiptinámi var góð þrátt fyrir snöggan …
Reynslan af hinu stutta skiptinámi var góð þrátt fyrir snöggan endi. Björgvin tók þessa mynd á hátíðinni Último primer día. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er allt rosalega mikil óvissa. Við gætum mögulega farið í ágúst en við vitum ekki hvort við þurfum þá að byrja allt upp á nýtt,“ segir Björgvin.

„Ég held samt að það séu allir mjög skilningsríkir á þessum tímum,“ segir Greipur að lokum. 

Allir íslenskir AFS-skiptinemar eru nú komnir heim en strákarnir voru þeir síðustu.

mbl.is