Laus úr einangrun tveimur tímum fyrir fæðingu

„Hún var svo heppin að einangruninni lauk á miðnætti í …
„Hún var svo heppin að einangruninni lauk á miðnætti í gærnótt og hún fór af stað klukkan tvö um nóttina. Þetta var algjör draumur, þetta var sem betur fer eðlileg fæðing og hún slapp við allt þetta stúss sem var búið að búa okkur undir,“ segir Guðrún. Ljósmynd/Aðsend

Nýjasti fjölskyldumeðlimur íslenskrar fjölskyldu, sem öll hefur veikst af kórónuveirunni, ber engin merki þess að hafa smitast. Móðir barnsins losnaði úr einangrun tveimur klukkustundum áður fæðingin hófst.

mbl.is sló á þráðinn til Guðrúnar Bergmann Franzdóttur, ömmu barnsins, en hún er ein sjö fjölskyldumeðlima sem veiktust af kórónuveirunni. 

Amma fær að sjá barnabarnið í fyrsta sinn.
Amma fær að sjá barnabarnið í fyrsta sinn. Ljósmynd/Aðsend

„Hún var svo heppin að einangruninni lauk á miðnætti í fyrrinótt og hún fór af stað klukkan tvö um nóttina. Þetta var algjör draumur, þetta var sem betur fer eðlileg fæðing og hún slapp við allt þetta stúss sem var búið að búa okkur undir,“ segir Guðrún. 

Upp komst um kórónuveirusmit innan fjölskyldunnar eftir skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu, en meðal þeirra sjö sem greindust með veiruna voru níu mánaða barn, ein barnshafandi, hjartveik kona og astmasjúklingur. Að sögn Guðrúnar heilsast öllum vel og eru nokkrir þegar lausir úr einangrun, eins og foreldrar nýjasta fjölskyldumeðlimsins, og losna hinir úr einangrun um helgina.

„Við getum ekki beðið eftir páskunum, að njóta páskasteikarinnar og páskaeggja og finna bragð af öllu saman,“ segir Guðrún, en eitt einkenna COVID-19 er að fólk missir bragð- og lyktarskyn. „Við erum öll orðin góð og bíðum bara eftir því að einangrunin klárist. Við bíðum spennt eftir að njóta frelsisins og geta til dæmis farið út í göngutúra, það eru litlu hlutirnir sem skipta svo miklu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert