Með hund í vinnunni vegna veirunnar

Viðar og hundurinn í vinnunni.
Viðar og hundurinn í vinnunni. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson

„Þessa dagana er ég einstaka sinnum með hundinn Tinna með mér í vinnunni til að okkur leiðist ekki en Tinni er þjálfaður leitarhundur og getur fundið týnt fólk á víðavangi, í húsarústum eða í snjóflóðum.“ Þetta er á meðal þess sem Viðar Einarsson, verkstjóri götuljósa og hlaða hjá Orku náttúrunnar (ON), segir í viðtali á vef Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Þar er nú hlekkur undir nafninu „Fólk í fjarmynd“ þar sem starfsfólk Orkuveitusamsteypunnar segir sögur af starfi sínu nú þegar vinnumhverfið er breytt vegna kórónuveirunnar.

„Þegar neyðarstigi var lýst yfir á landinu og allt skrifstofufólk flutti sína starfsemi heim í stofu ákváðum við hjá ON að ég mundi einn mæta á verkstæði götuljósanna ásamt tveimur verkstæðisstarfsmönnum. Við sinnum okkar þjónustu á sex bílum þar sem tveir og tveir eru saman í bíl. Venjulega rótera menn á milli bíla en nú voru allir skikkaðir með fastan félaga og bannað að hitta aðra í teyminu.

Við erum almennt miklar félagsverur svo það hefur reynt töluvert á mig og teymið að halda mönnum í sundur og banna þeim að hittast. Strákarnir hafa því þurft að húka í bílunum allan daginn án þess að koma á okkar bækistöð,“ segir Viðar, í viðtalinu fyrir aprílmánuð.

Áhersla á heilsu

Í marsmánuði sagði Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir, mannauðssérfræðingur hjá OR, frá því hvað hefði breyst eftir að samkomubann var sett á og sagði m.a.: „Þar sem við sinnum mikilvægri grunnþjónustu samfélagsins þá skipti miklu máli að hlúa vel að mannauði okkar í þessum aðstæðum því kerfin eru ekkert án starfsfólksins sem rekur þau. Við ákváðum strax að leggja áherslu á að rækta bæði líkamlega og andlega heilsu allra og fylgjumst vel með líðan fólks.

„Hvernig líður þér“ er mikilvæg spurning sem við spyrjum oft og sýnum frumkvæði að því að hafa samband við fólk og kanna aðstæður. Samhliða því er lögð áhersla á að horfa fram á við og muna að þetta er tímabundið ástand sem mun taka enda.“

Viðtölin í heild má lesa hér.

Ellen með vinnuna heima við.
Ellen með vinnuna heima við. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert