Óttaðist að einhver hefði smitast af henni

Sara lýsti upplifun sinni af kórónuveirunni á á fundinum í …
Sara lýsti upplifun sinni af kórónuveirunni á á fundinum í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ, telur að hún hafi verið komin í ákveðið bataferli þegar hún greindist óvænt með kórónuveiruna eftir að hafa farið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Sara var gestur á fundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag.

Hún hafði verið slöpp vikuna á undan, en segist hafa tekið víkinginn á þetta og farið í vinnuna. „Ég var ómöguleg en keyrði mig inn í daginn,“ sagði hún á fundinum. Hún taldi sig í raun ekki veika heldur fann fyrir týpískum slappleika. Hana óraði ekki fyrir því að hún væri með veiruna. Hún var þó á varðbergi og gætti sín.

Sara sagði það hafa verið skrýtna tilfinningu að fá fréttir um að hún hefði smitast. „Ég hef kallað þetta COVID-tilfinningarússíbanann. Þetta augnablik, það hægist á öllu.“ Hún var að koma af bæjarstjórnarfundi þegar hún fékk símtalið og brá því verulega.

Vegna þess hve hún var búin að vera slöpp í langan tíma þurfti að hafa samband við ansi marga sem hún gæti hafa smitað. Á þeim tíma var mikið álag á smitrakningarteyminu, en hún fór í lið þeim að reyna að rekja ferðir sínar. Hún hvetur því alla til að sækja sér smitrakningarappið.

Hún upplifði samviskubit en jafnframt hræðslu við hið óþekkta. Þá óttaðist hún þann raunveruleika að einhver smitaðist af henni. „Í sóttkvíarhópnum mínum var 93 ára gömul vinkona mín, ég hitti hana daginn sem ég fékk greiningu.“ Hún smitaðist þó ekki og Sara veit ekki til þess að neinn hafi smitast af henni. Hún talaði við vinkonu sína í símann á hverjum degi og þær hafa verið hvetjandi hvor fyrir aðra.

Þá vildi Sara koma því á framfæri fyrir hönd þeirra sem hafa náð bata að þeir smita ekki meira en aðrir ósmitaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert