Óveður á landinu öllu á morgun

Frá átta til tólf fyrri hluta dags á morgun eru …
Frá átta til tólf fyrri hluta dags á morgun eru í gildi appelsínugular viðvaranir fyrir alla landshluta að höfuðborgarsvæðinu undanskildu. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Stormur verður á landinu öllu á morgun en óveður hefst síðdegis í dag. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir allt landið að höfuðborgarsvæðinu undanskildu frá klukkan átta í fyrramálið og til tólf á hádegi. Ekkert ferðaveður verður á landinu á morgun, að sögn veðurfræðings, en veðrinu ætti að slota annað kvöld. 

„Það er að koma leiðindaveður. Hvassviðrisstormi er spáð nú í eftirmiðdaginn og þá verður hvassast syðst á landinu. Það gengur víða á með éljum í dag og svo herðir á vindinum í kvöld og nótt. Þá er stormi eða roki spáð á morgun með talsverðri snjókomu og skafrenningi. Það má því segja að það verði óveður á landinu á morgun,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Fleiri ástæður til að halda sig heima

Ástæða óveðursins er lægð sunnan úr höfum. 

„Það er lægð að koma sunnan úr höfum og svo er talsverð hæð yfir Grænlandi þannig að það er vindstrengur á milli þessara kerfa,“ segir Haraldur. 

Veðrið verður verst í fyrramálið og fram til hádegis og bendir Haraldur á að nú séu því fleiri ástæður til að halda sig heima en kórónuveiran. 

„Á morgun verður ekkert ferðaveður svo það er eiginlega sjálfgefið að fólk haldi sig heima.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert